Emúasystkinunum Carol og Kevin hefur verið bannaður aðgangur að hótelinu í smábænum Yaraka í óbyggðum Queensland í Ástralíu.

Þó fuglarnir tveir hefðu í gegnum tíðina verið almennt vingjarnlegir og til friðs, þá breyttist það til hins verra þegar þau komust að því á dögunum að hægt væri að klifra upp tröppurnar að útipalli hótelsins.

Sá nýi hæfileiki færði fuglunum aðgang að hótelbarnum, og þegar þangað var komið upphófst allsherjar glundroði. Systkinin stálu ristuðu brauði og frönskum kartöflum af borðum hótelgesta, og annar fuglinn fór bak við barinn og olli þar usla.

Sett hefur nú verið upp skilti neðst við tröppurnar sem á stendur „Emúar hafa verið bannaðir frá þessu hóteli fyrir slæma hegðun.“

„Við settum upp skiltið en við erum ekki alveg viss um að þau geti lesið það,“ sagði annar eiganda hótelsins, Gerry Gimblett, við 10 News First Queensland, „þannig að við þurftum að setja borða þarna fyrir líka.“ Hótelgestir eru vinsamlega beðnir um að festa borðann aftur á sinn stað þegar framhjá er komið.

Hættulegt getur verið að standa í vegi fyrir emúa ef fuglinn er búinn að koma auga á eitthvað ljúffengt. Eru þeir búnir sterkum goggi og löngum hálsi sem getur sogað upp mat líkt og ryksuga. Ennfremur eiga þeir það til ef þeim er brugðið að taka á rás í dauðans ofboði — nema horfandi aftur fyrir sig á meðan, til að geta fylgst með ógninni sem hlaupið er frá.

„Almættið hjálpi fólki og fyrirbærum sem verða fyrir þeim á blindhlaupi,“ sagði Gimblett.

Þrátt fyrir óþekktina nýverið hafa fuglarnir átt gott samband við hóteleigendur og hótelgesti um langt skeið. Systkinin hafa til að mynda lært að ef þau sitja fyrir á myndum hljóta þau yfirleitt eitthvað góðgæti að launum.

Nýlærður hæfileiki þeirra til að príla upp tröppurnar flækir samveruna smávegis, en borðinn virðist hafa náð að þjóna sínum tilgangi að svo búnu. Gimblett segist þó vona að fuglunum hugkvæmist ekki að dansa limbódans undir borðann og upp stigann.

Bærinn er lítill og er plássleysi því ekki mikið vandamál, en eins og vill vera með villt dýr, þá er annað og stærra vandamál við að leyfa fuglunum að spranga um pallinn.

„Þau væru velkomin inni, ef þau gætu bara haldið í sér,“ sagði Gimblett.

Sjónvarpsfrétt um málið má sjá hér: