Cody Goldberg í Oregon-fylki í Bandaríkjunum réðst fyrst í það fyrir ellefu árum að gerbreyta leikvellinum í hverfinu sínu í Portland. Upprunalega ætlunin var einungis að gera völlinn aðgengilegri fyrir dóttur hans, Harper, sem er fötluð og notast við hjólastól, en hugmyndir hans hafa síðan fengið byr undir báða vængi.

Hugmyndin kom þegar Goldberg fór fyrst með Harper á leikvöll árið 2009. Honum til mikilla vonbrigða komst hann að því að viðarflögurnar sem þöktu jörðina hjá leiktækjunum gerðu svæðið óaðgengilegt fyrir hjólastól dóttur hans, sem þá var fjögurra ára.

Þegar garð- og afþreyingardeild borgarinnar heyrði kvörtun Goldbergs var einfaldlega sagt að ekki væru til peningar fyrir ný verkefni, en þau myndu styðja við bakið á endurbótum á leikvellinum ef þær væru einkafjármagnaðar.

Goldberg gerði sér því lítið fyrir og setti á laggirnar Harper’s Playground („Leikvöll Harpers“), frjáls félagasamtök helguð því að opna fleiri leikvelli sem eru aðgengilegir fötluðum þvert og breitt um Bandaríkin. Eftir þrjú ár af sleitulausri fjáröflun opnuðu samtökin svo fyrsta leikvöll sinn í nóvember árið 2010. Á honum má finna allt frá hljóðfærum og aðgengilegum leiktækjum til grænna náttúrusvæða og malbikaðra rampa, sem hjólabrettafólk getur nýtt sér til jafns við þau fötluðu.

Mynd: Harper’s Playground

Samkvæmt Goldberg er Harper’s Playground hannað með þrjú lög af þægindum í huga. „Í fyrsta lagi þarf rýmið að vera aðgengilegt, þannig að ef þú ert til að mynda á hjólum þá geturðu komist hvert sem er,“ sagði hann. „Í öðru lagi þarf það að vera félagslega þægilegt, með hringlaga sætasvæðum, svæðum þar sem hægt er að sitja og spjalla og borða, og mikilli náttúru allsstaðar.

„Og svo er þriðja lagið það sem við köllum tilfinningaleg þægindi, og þar notum við list, fallega hönnun, tónlist og aðra hluti sem setja okkur í gott hugarástand,“ sagði Goldberg.

Síðan garðurinn opnaði í Portland hefur Harper’s Playground verið innblásturinn að fjölmörgum öðrum svipað hönnuðum görðum víðs vegar um Bandaríkin.

Sjáið myndskeiðið um garðinn hér: