Ný sókn atvinnulífs er fram undan. Valið snýr að því hvort við viljum endurreisa hagkerfið sem var eða byggja upp fleiri stoðir með því að virkja hugvitið í meiri mæli. Áherslur Samtaka iðnaðarins í þeim efnum eru skýrar en á sama tíma og bæta þarf rekstrarskilyrði þeirra atvinnugreina sem fyrir eru þarf að byggja upp nýjan iðnað og sækja tækifærin. Þannig aukast lífsgæði landsmanna til lengri tíma litið, ekki bara til skemmri tíma. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein í Markaðnum með yfirskriftinni Stærsta efnahagsmálið. Þá kemur fram í grein Sigurðar að nýlega hafi Samtök iðnaðarins gefið út skýrslu undir yfirskriftinni „Hlaupum hraðar “ þar sem fjallað sé um efnahagsleg markmið til ársins 2025 og fjölmargar leiðir til að ná þeim markmiðum. Í stuttu máli þurfi að fjölga störfum í einkageiranum um 29 þúsund á næstu fjórum árum og auka útflutning um 300 milljarða til að búa við sömu lífsgæði og voru áður en heimsfaraldur kórónaveiru skall á. Þetta sé vissulega metnaðarfullt en raunhæft og megi benda á að svipaður fjöldi starfa hafi orðið til á árunum 2015-2018.

Leið vaxtar er farsælasta leiðin fram á við

Sigurður segir að á næstu tólf mánuðum verði teknar ákvarðanir sem munu ráða miklu um efnahagslega framtíð á Íslandi næstu ár og áratugi. Kólnun hagkerfisins hafi verið staðreynd fyrir heimsfaraldur kórónaveiru. Viðbrögð við heimsfaraldrinum hafi reynst hinu opinbera mjög kostnaðarsöm og nemi aukning skulda hátt í milljarði króna á hverjum virkum degi. Eftir skynsama hagstjórn undanfarinna ára sé ríkissjóður vel í stakk búinn að taka á sig auknar byrðar en að lokum komi að skuldadögum. Hann segir að leið vaxtar – að veita atvinnulífinu svigrúm til að skapa aukin verðmæti og ný og eftirsótt störf – sé farsælasta leiðin fram á við. Leið aukinna, opinberra umsvifa og skattlagningar muni hefta vöxt atvinnulífs og tefja endurreisnina. Með því að slíta fjötrana sem haldi aftur af atvinnulífinu með markvissum hætti á næstu mánuðum verði hægt að hraða uppbyggingu og skapa ný og eftirsótt störf og aukin verðmæti.

Íslensk stjórnvöld verði virkir þátttakendur í að sækja tækifærin

Í niðurlagi greinarinnar segir Sigurður að stjórnvöld í öðrum ríkjum séu virkir þátttakendur í því að sækja tækifærin og það þurfi íslensk stjórnvöld einnig að gera. Þetta gerðu stjórnvöld á sjöunda áratug síðustu aldar þegar tækifæri þess tíma voru sótt. Nú þurfi að sækja tækifæri okkar tíma sem liggi í nýsköpun, hugverkaiðnaði og í öðrum iðnaði sem tengist hröðum tækniframförum og loftslagsmálum. Þetta sé stærsta efnahagsmálið.

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.