Kínversk stjórnvöld greindu frá því rétt áðan að ekkert kórónaveirusmit hefði komið upp í Kína föstudaginn 22. maí og væri hann þá um leið fyrsti smitlausi dagurinn í landinu síðan faraldurinn hófst. Á fimmtudag voru fjögur ný smit staðfest.

Tilkynningunni fylgdi reyndar að einn erlendur ferðamaður hafi verið sendur í rannsókn eftir komu til Shanghai og að grunur um annað smit hefði komið upp í borginni Jilin. Hvorugt tilfellið hefði hins vegar verið staðfest sem Covid-19-sjúkdómurinn.

Tölur um dagleg staðfest smit í Kína hafa farið hríðlækkandi frá því um miðjan apríl og þakka heilbrigðisyfirvöld í landinu það bæði mjög skjótum aðgerðum í hverju tilfelli fyrir sig og gríðarlega víðtækum.

Þannig var t.d. ákveðið þann 8. apríl, þegar upp kom fjölgun á smitum á milli daga í Wuhan-borg, að kalla alla íbúa borgarinnar og svæðisins þar í kring inn til rannsóknar. Þeir eru 11 milljónir talsins. Þessi gríðarlega umfangsmikla aðgerð tók samt aðeins nokkra daga.

Þrátt fyrir þetta segja kínversk yfirvöld að hvorki verði slakað á í viðbúnaði vegna faraldursins né öryggiskröfur minnkaðar enn um sinn og um óákveðinn tíma.

Staðfest smit á meginlandi Kína eru nú 82.971 og dauðsföll 4.634.