George Floyd var svartur íbúi í Minneapolis sem lögreglumenn í borginni komu að í bíl þar sem hann sat undir stýri og var drukkinn. Tilefnið til að hafa tal af honum voru grunsemdir um að hann hefði villt á sér heimildir, en fréttir af því hvernig hann gerði það eru óljósar.

Þetta gerðist í gærmorgun (25/5) og lögreglumennirnir, sem voru fjórir, ákváðu að handtaka George. Þegar hann veitti þeim mótspynu skelltu þeir honum í malbikið og handjárnuðu hann. Og þótt George hefði þar með verið verið algjörlega óvígur kraup annar lögreglumaðurinn niður að honum og þrýsti hnénu á háls hans.

Um það leyti hefst myndbandsupptakan sem sjá má hér. Rétt er að vara fólk við henni því hún sýnir hvernig lögreglumaðurinn murrkar lífið án miskunnar úr George án þess að vegfarendur, sem sáu greinilega í hvað stefndi, fái rönd við reist.

George byrjar fljótlega að grátbiðja lögreglumanninn að fjarlægja hnéð af hálsi sér því hann nái ekki andanum. Svo virðist sem lögreglumaðurinn ýti hnénu þá bara fastar niður að hálsi hans.

Að lokum missir George meðvitund og þrátt fyrir háværar kröfur viðstaddra um að standa þá upp af hálsi hans sinnir lögreglumaðurinn því engu fyrr en nokkrum mínútum síðar þegar sjúkrabíll kemur á svæðið. Þá var George látinn.

Gríðarleg reiði hefur brotist út vegna málsins og sendi borgarstjóri Minneapolis, Jacob Frey, frá sér tvær yfirlýsingar vegna þess, svo og aðrir málsmetandi aðilar, þ. á m. einn af þingmönnum Minnesota-ríkis, Amy Klobuchar.

Hér eru yfirlýsingar þeirra og eins og sagði má sjá morðið hér, en óhætt er að fullyrða að það muni valda mörgum sem á það horfa óhug. Einnig má lesa nánar um málið í ýmsum bandarískum fréttamiðlum.