Ástæðan fyrir banninu var Fortnite-uppfærsla sem gerði leikmönnum kleift að kaupa gjaldeyri innan leiksins á lægra verði, svo lengi sem keypt væri beint frá Epic Games, framleiðanda leiksins, og Apple þar með klippt út úr keðjunni. Apple tekur alla jafna 30% af sölutekjum þeirra forrita sem fara í gegnum app-verslun þeirra. 

Epic virðist hafa verið meðvitað um að bannið væri á leiðinni, þar sem tilkynning um kæruna kom frá þeim aðeins nokkrum mínútum eftir að leikurinn var fjarlægður úr versluninni. Einhverjum klukkustundum síðar fjarlægði Google einnig leikinn úr Google Play verslun sinni, þó hann sé enn fáanlegur á Android-síma eftir öðrum leiðum.

App-verslun Apple er eina leiðin til að sækja forrit fyrir snjallstýrikerfi þeirra, iOS, og sögðu Apple í tilkynningu að Epic hefðu tekið “það óheppilega skref að brjóta í bága við reglur verslunarinnar.” Téðar reglur, sem kveða á um að ekki megi notast við neitt annað greiðslukerfi en þeirra, hafa margsinnis orsakað rifrildi á almenningsvettvangi milli Apple og hugbúnaðarfyrirtækja sem þróa öpp í verslun þeirra.

Epic hafa sagt að þeir spilarar Fortnite á iPhone sem eru nú þegar með leikinn inni á símum sínum ættu að geta haldið áfram að spila þangað til næsta uppfærsla leiksins fer í loftið, en eftir hana muni einhverjir fítusar tapast. Mac-spilarar munu hins vegar ekki finna fyrir neinum áhrifum, þar sem sú útgáfa tengist ekki iOS app-versluninni á neinn hátt.

Auk þess að tísta um kæruna tilkynnti Epic að á næstu misserum yrði frumsýnd inni í leiknum ný stuttmynd. Mun hún bera nafnið Nineteen Eighty-Fortnite, sem er eins og gefur að skilja tilvísun í skáldsögu George Orwell, 1984, um dystópískt samfélag þar sem þegnum er stjórnað af alræði og engin mótspyrna tekin til greina.

Apple hefur sjálft vísað til 1984 í frægri sjónvarpsauglýsingu árið 1984. Var fyrirtækið þá ungt og á uppleið, og stillti sér því upp sem nokkurskonar Davíð á móti Golíat-risanum, sem á þeim tíma var IBM. Epic minntist sérstaklega á þessa auglýsingu í kærunni og sögðu að Apple væri nú búið að snúast upp í andhverfu sína frá því sem áður var — væri nú orðið að beljakanum sem reynir að stjórna markaðnum, hindra samkeppni og kæfa nýsköpun. Í kærunni segir einnig að Apple sýni einokunartilburði með því að bæði ákveða hvaða öpp megi nota á iPhone-símum og krefjast þess að einungis þeirra eigið greiðslukerfi sé notað.

Piers Harding-Rolls, formaður leikjarannsókna hjá fjölmiðlagreiningarfyrirtækinu Ampere Analysis, hefur látið hafa eftir sér að þessi upfærsla Epic hafi verið með vilja gerð, í þeim tilgangi að láta Apple fjarlægja appið og skapa þannig stuðning fyrir Epic meðal almennings. Einnig sagði hann að þó svo að iPhone sé ekki stærsti vettvangur Fortnite verði bannið ekki alls sársaukalaust fyrir Epic, þar sem fyrirtækið mun verða fyrir tugmilljóna dollara tekjutapi á mánuði.

Mikil óánægja ríkir meðal hugbúnaðarsérfræðinga um 30 prósentin sem Apple tekur af hverri greiðslu og hafa margir líkt henni við glæpsamlegt athæfi. Ásamt Google keyrir Apple stýrikerfi flestra síma veraldar og hefur þannig algert úrslitavald um hverjir fá að setja öpp í verslanir þeirra og hverjir ekki, ásamt því að ráða hversu stór hluti teknanna rennur til þeirra. Hafa sumir kallað þetta tvíokun.

Epic er samt sem áður andstæðingur sem Apple vill helst ekki þurfa að kljást við. Fortnite er einn arðbærasti leikur heims og hefur fyrirtækið því næga fjármuni til að berjast við risann. Þar að auki er tvíþætt aðferðafræði þeirra í þessu tifelli — að spara notendunum fé og valda samtímis usla á almenningsvettvangi  — talið herkænskubragð hjá þeim til að bæði auka stuðning sinn meðal almennings og vekja á sama tíma athygli á viðskiptaháttum Apple, sem eru nú þegar undir smásjá hjá bæði Bandaríkjaþingi og Evrópusambandinu og mega illa við meiri athygli að svo búnu.

Í kærunni segist Epic ekki vera að leita fjárhagslegra bóta. Þess í stað vill fyrirtækið lögbannslétti til að leyfa, eins og segir í skjalinu, “frjálsa samkeppni á þessum tveimur lykilmörkuðum, sem hafa bein áhrif á hundruðir milljóna neytenda og tugi þúsunda hugbúnaðarfyrirtækja.”

Kæran virðist líka benda til stærri markmiða hjá Epic. í henni stendur einnig: “Ef ekki væri fyrir ólögmætar takmarkanir Apple myndi Epic færa iOS-notendum aðra app-verslun í beinni samkeppni.”

Epic er nú þegar búið að gera sambærilega innreið á PC-leikjamarkaðinn með því að setja á fót Epic Games Store, og óð fyrirtækið þar óttalaust í beina samkeppni við annan risa, leikjaveituna Steam. Minnir þessi rimma við Apple óneitanlega á það atriði — verslun Epic rukkar hugbúnaðarfyrirtæki 12% fyrir PC-leiki, á meðan Steam rukkar 30% rétt eins og Apple. Harding-Rolls segir hins vegar að Apple sé annars konar áskorun en PC-markaðurinn vegna þess að ómögulegt sé að byggja verslun sem þriðji aðili í iOS-stýrikerfinu, né heldur afla tekna fyrir hugbúnað utan app-verslunar Apples.

Apple hefur gefið út yfirlýsingu þar sem segir að regluverkið hjá þeim gangi jafnt yfir alla samstarfsaðila innan verslunarinnar, og tekur fram að Epic hafi framkvæmt uppfærsluna gagngert til þess að brjóta á reglum verslunarinnar.

“Epic hefur verið með efni í app-versluninni í áratug, og hafa hagnast á vistkerfi hennar,” segir í yfirlýsingunni. “Sú staðreynd að viðskiptahagsmunir þeirra leiði þau núna til að þrýsta á sérstakt fyrirkomulag breytir ekki þeirri staðreynd að þessar reglur skapa jafnan grundvöll fyrir öll hugbúnaðarfyrirtæki og gera verslunina örugga fyrir alla notendur.” Bætti Apple því við að fyrirtækið myndi reyna að vinna með Epic til að koma Fortnite aftur inn í verslunina.