Þessi mikla skattheimta á áfengum drykkjum skilar sér svo að sjálfsögðu beint til neytenda, hvort sem verslað er við ríkisreknar vínbúðir, veitingastaði, krár eða skemmtistaði.

Í ljósi þess að áfengissala er ansi stór partur af innkomu veitingastaða og augljóslega nánast eina tekjulind þeirra vínveitingastaða sem ekki selja mat er það óumdeilanlegt að þessi háu gjöld hafa mikil áhrif á bæði afkomu þessara aðila og svo það verð sem viðskiptavinir þeirra þurfa að greiða fyrir vöruna.

En hversu stór hluti af verði áfengis eru þessi skattar og gjöld. Með því að nýta okkur reiknivél tollstjóra og ímynda okkur að örlátur ættingi hafi ákveðið að senda til landsins sem gjöf ýmsar tegundir og magn af áfengi þá getum við skoðað hver gjöldin væru á áfengi sem kemur til landsins á verðinu núll krónur. Ég geri ráð fyrir að flutningskostnaður sé enginn. Það skal svo tekið fram að það breytir engu í þessu samhengi hvort varan er framleidd innanlands eða flutt inn.

Bjórkippa, styrkleiki 6% – magn 3 lítrar – Samtals skattar og gjöld = 1692 kr (þar af vsk 168 kr)

Rauðvínsflaska, styrkleiki 12%, magn 750 ml – Samtals skattar og gjöld 951 kr (þar af vsk 94 kr)

Flaska af Vodka, styrkleiki 40% – magn 1 lítrar – Samtals skattar og gjöld = 6900 kr (þar af vsk 684 kr

Flaska af Bourbon, styrkleiki 63,9%, magn 750 ml – Samtals skattar og gjöld = 8263 kr (þar af vsk 819)

Eins og sést á þessu þá eru áfengisgjöld ansi stór hluti af verði áfengis og þannig stór áhrifavaldur í verði á því áfengi sem neytendur, hvort sem það eru heimamenn eða ferðamenn, greiða þegar þess er neytt á íslenskum vínveitingastöðum.

Ég undirritaður vill nota þetta tækifæri til þess að biðjast afsökunar, því af mínum völdum, hafa verið rukkaðir fleiri miljarðar í áfengisgjöld aukalega síðustu ár.

Hvernig fór hann að því helvítið á honum  gæti einhver spurt?  Jú, það er þannig að árið 2015 birti ég skýrslu sem ég hafði unnið ásamt hagfræðingnum Árna Sverri Hafsteinssyni um skattsvik í ferðaþjónustu. Ein af þeim tillögum til úrbóta sem við lögðum til var sú að lækka virðisaukaskatt á áfengi niður í 11% með annari matvöru en hækka áfengisgjöld á móti til þess að staða ríkissjóðs væri eftir breytinguna sú sama og áður. Þetta var hugsað til þess að auðvelda skattaeftirlit með einfaldara vsk kerfi. Vandamálið er hins vegar að síðan þessu var breytt er búið að hækka áfengisgjöldin að ég held þrisvar sinnum á meðan virðisaukaskatturinn hefur staðið í stað. Mér þykir þetta afskaplega leiðinlegt og biðst eins og áður segir afsökunar hér með.

Ég sem veitingamaður hef síðustu ár þurft að svara fyrir það í sífellu hversu dýrt það er að fara á barinn á Íslandi og að álagning veitingamanna hér sé allt of há. Mér hefur ekki þótt þetta sanngjörn umræða vegna þess að fá ef nokkur vara hefur jafn lítið haldið i við almennar verðhækkanir og bjórinn á barnum.  Mig langar að taka annað dæmi úr reiknivélinni góðu nema núna ætla ég að ímynda mér að frændi hafi sent mér heilan kút af bjór.

Kútur af bjór, styrkleiki 5,6%, magn 25 lítrar – Samtals skattar og gjöld = 11.701 kr (þar af vsk 1160)

Úr þessum 25 lítra bjór færðu ca 46 stóra bjóra, það þýðir að af verði hvers bjórs úti á næsta bar fara um 220 krónur beint til ríkisins í formi áfengisgjalds, ofan á að bætist svo vsk sem nemur 11% af útsöluverði. Þá á sá sem selur bjórinn eftir að borga heildsala, starfsfólki, leigu og allan annan rekstrarkostnað. Algengt útsöluverð hefðbundnum lagerbjór er á bar í miðbæ Reykjavíkur sirka 1000 til 1300 krónur. Af því eru áfengisgjöld því um 18  til 23% af verðinu. Þetta hlutfall hækkar svo enn meira á „happy hour“, þegar útsöluverð er 600 til 900 krónur.

Þessu til sambanburðar get ég sagt frá því að ég vann á bar um síðustu aldamót þegar verð á stórum bjór hækkaði úr 500 í 600 krónur og viðskiptavinir urðu allt annað en sáttir. Nú 20 árum síðar er, ef þú kannt að leita, hægt að fá bjór á svipuðu eða aðeins hærra verði á fjölmörgum börum og veitingastöðum. Og það þrátt fyrir að leiga, laun, kostnaður og áfengisgjöld hafi stórhækkað síðan. Það væri gaman að sjá hvort aðrar verslanir eða þjónustufyrirtæki gengju lengi á því að bjóða uppá 20 ára gömul verð hluta úr degi alla daga vikunnar.

Síðasta vor var ég staddur á Kanaríeyjum, en þær eyjar eru rómaðar af bjórþyrstum íslenskum ferðalöngum fyrir hagstæð verð. Af forvitni spurði ég vertann á barnum á næsta horni hvað hann væri að borga fyrir bjórkútinn. Hann sagði mér þá að 30 lítra kútur kostaði hann um 30 evrur. Það þýðir að kostnaður við hvern stóran bjór hjá honum er um 0,55 € – Hann seldi bjórinn svo á 2,5 € sem gerir um 450% álagningu.  Það kæmist enginn íslenskur veitingamaður upp með slíka verðlagningu á bjór, menn geta svo ímyndað sér hver munurinn er á öðrum rekstarkostnaði barsins á Kanarí og íslenskum vínveitingastöðum.

Nú þegar við komust vonandi út úr þessu ástandi næstu mánuði munu ansi margir veitingamenn vera illa staddir og það má ekki mikið út af bregða. Það er kannski vert umhugsunar að þó ekki væri nema tímabundið minnka aðeins hlut skattsins í tekjum þessarar atvinnugreinar

Tek fram að ég sem veitingamaður er að sjálfsögðu ekki  hlutlaus í þessu máli