Stofnandi og forstjóri Facebook, Mark Zuckerberg, átti á dögunum viðtal við YouTube-stjörnuna Marquees Brownlee þar sem þeir ræddu fyrirhugaða innrás Facebook-fyrirtækisins inn á svið sýndarveruleika (“virtual reality”) og viðbótarveruleika (“augmented reality”).

Zuckerberg veitti í viðtalinu frekar skýra svipmynd af áformum sínum á þessum tveimur tæknisviðum, en sjaldgæft telst að hann geri slíkt. Helst vakti þar athygli yfirlýsing hans um að Facebook myndi beina athygli sinni að þróun viðbótarveruleikagleraugna sem munu kasta þrívíðri heilmynd fyrir framan notendur, sem hægt verður að verka með handahreyfingum einum án þess að áþreifanlegur hlutur þurfi að koma til skjalanna.

„Símarnir í vösum okkar eru nú þegar frekar undraverðir,“ sagði Zuckerberg. „Þú ert með þessa gríðarlega öflugu tölvu í vasanum, en það er ekki endastöðin. Síminn dregur þig út úr heiminum í kringum þig og sogar þig inn í lítinn skjá.“

“Undirstaðan í sýndar- og viðbótarveruleika er að þú verður að hafa tækni sem kemur til skila nærveru, þessari tilfinningu fyrir því að þú sért á staðnum með annarri manneskju, og öllum skynhrifunum sem því fylgir,” sagði Zuckerberg og virtist í gegnum viðtalið frekar bjartsýnn á að tími skjátækjanna væri senn að líða undir lok.

Þó hann hafi hvergi minnst berum orðum á Apple eða iPhone-símann þótti mörgum glöggum að Zuckerberg væri að ýja að því að Facebook væri að beina sjónum sínum að þeim sem keppinautum. Hann tók til að mynda sérstaklega fram að hann sjálfur, sem og allt starfsfólk Facebook, notuðust einvörðungu við Android-síma. 

Kunnugt er einnig að Facebook mótmælti fyrr í mánuðinum opinberlega fyrirhuguðum breytingum Apple á næstu útgáfu iOS-stýrikerfis síns, sem hefðu gefið notendum neitunarvald á því að leyfa auglýsendum að fylgjast með ferðum sínum á milli appa í gegnum svokallað IDFA (“ID for Advertisers”). Leiddi þetta til þess að Apple frestaði þeim áformum.

iPhone-síminn er eins og flestir vita eitt útbreiddasta skjátæki heims í dag, og jafnframt langmikilvægasta vara Apple.

Viðtalið má sjá í heild sinni hér: