Borgo a Mozzano á Ítalíu árið 2015. Mynd: George Nobechi
COVID-19 kórónuveirufaraldurinn hefur svo sannarlega sett varanlegt mark á heiminn í dag. Mörg hundruð milljónir manns búa við einhvers konar samkomutakmarkanir og einmanaleiki og einangrun reynist mörgum erfið.
Margir ljósmyndarar hafa búið sér til verkefni með því að mynda auðar götur sem áður iðuðu af lífi eða mynda fólk í einangrun í gegnum glugga. Japanski-kanadíski ljósmyndarinn George Nobechi hefur hins vegar undanfarið deilt myndum sem hann byrjaði að taka árið 2015, þegar að hann gekk í gegnum stormasaman tíma í sínu lífi. Myndirnar urðu að myndaseríunni Here. Still. (Unmoored) sem tók Nobechi þrjú ár í smíðum.
Á þeim tíma sem ljósmyndarinn hóf þessa vegferð sína var hann enn að syrgja föður sinn, sem féll skyndilega frá nokkrum árum áður. Nobechi var einnig að gera upp erfið sambandsslit og framann í fjármálaheiminum í New York sem varð til þess að Nobechi upplifði kulnun í starfi, sem á ensku er einfaldlega kallað „burn out“.
Nobechi eyddi þremur árum í að ferðast á milli borga, gista á sófum vina sinna og sætta sig við hvaða stefnu líf hans hafði tekið. Þá fann hann aftur fyrir ástina á ljósmyndun, ást sem hann hafði fyrir löngu glatað í hinum hraða heimi. Í myndaseríunni Here. Still. (Unmoored) fangaði hann á filmu rými í sínu eðlilega ástandi; tóma rútu, mótelherbergi, vinnuborð leirkerasmiðs svo fátt eitt sé nefnt. Alls er um að ræða fimmtán myndir sem hafa nú gengið í endurnýjun lífdaga sökum þess að þær minna um margt á þá kyrrð og einangrun sem ríkir víða í heiminum. Tilgangur Nobechi var einfaldur – að fanga hlýju mannkynsins innandyra og kyrrðina í heiminum utan veggjanna.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar af myndum Nobechi, en fleiri myndir má sjá á heimasíðu hans.