Allen Pan er verkfræðingur sem heldur úti hinni stórskemmtilegu YouTube-rás Sufficiently Advanced, þar sem hann gefur uppfinningagleðinni lausan taum. Nýjasta uppátæki kappans er byssa sem getur skotið grímum rakleiðis á andlit fólks.

Í myndskeiði um gripinn útskýrir Pan að nóg sé nú þegar til af upplýsingum um kosti þess að bera grímu, en hann hafi viljað ganga aðeins lengra. Hann sneri sér því til stjórnarskrár Bandaríkjanna, nánar tiltekið annars viðauka, sem eru jú réttindin til að bera vopn.

„Ég ætla að blanda saman öðrum viðauka og heilsufarsþjónustu… Byssur og almannavarnir. Búmm! Það besta af báðum heimum,“ segir hann.

Eftir að fara stuttlega í gegnum sköpunarferli byssunnar þá fer Pan síðan með gripinn í heimsókn niður á Huntington Beach — sem hann segir eina grímufælnustu borg Bandaríkjanna — og ákveður að sjá hvernig fólk taki í hugmyndina.

Myndskeiðið má sjá í heild sinni hér: