Bókin The Nightingale, eða Næturgalinn eftir bandaríska rithöfundinn Kristinu Hannah kom út árið 2015 og var fljótlega komin á metsölulista New York Times þar sem hún síðan dvaldi samtals í 114 vikur, þar af um tíma í fyrsta sæti. Bókin aflaði höfundinum margra verðlauna, var til að mynda valin bók ársins 2015 af ýmsum aðilum sem láta til sín taka á bandaríska bókamarkaðinum.  Í dag hefur bókin selst í meira en 3,5 milljónum eintaka í Bandaríkjunum auk þess sem hún hefur verið þýdd á 45 tungumál, þ. á m. á íslensku af Ólöfu Pétursdóttur árið 2016 og þykir sú þýðing afbragðsgóð.

Það leið ekki á löngu uns búið var að selja kvikmyndaréttinn að sögunni til TriStar Pictures og var Dana Stevens (Blink, Safe Haven, City of Angels, For Love of the Game) ráðin til að skrifa handritið. Í fyrra var svo tilkynnt að systurnar Dakota og Elle Fanning hefðu verið fengnar í aðalhlutverkin og að hin franska Mélanie Laurent yrði leikstjóri, en Mélanie sendi síðast frá sér myndina Galveston (2018) sem mörgum þótti mikið til koma en fór því miður fyrir ofan garð og neðan hjá öðrum. Allt var svo orðið klárt fyrir tökur í mars síðastliðnum og stóðu vonir jafnvel til að hægt yrði að frumsýna myndina í desember ef tökur yrðu á áætlun. En þá birtist kórónaveiran og breytti öllu.

Nú standa vonir til að hægt verði að hefja tökur á myndinni seint í haust og að hún verði svo frumsýnd haustið 2021. Vonandi gengur það eftir því þetta er saga sem á svo sannarlega skilið að rata á hvíta tjaldið.

Fóru ungar á toppinn

Systurnar Dakota og Elle Fanning á góðri stundu en þær eru nú stutt frá því að fá draum sinn um að leika saman í bíómynd uppfylltan. Mynd: Dave Benett/Getty Images.

Þær Dakota (f. 1994) og Elle (f. 1998) Fanning hafa verið áberandi í bandaríska kvikmyndabransanum um árabil og leikið í mörgum þekktum myndum. Má segja að frægðarsól þeirra hafi byrjað að rísa frá og með myndinni I Am Sam sem var gerð árið 2000 (frumsýnd í mars 2001) þar sem hin sex ára gamla Dakota sló hressilega í gegn sem Lucy, dóttir titilpersónunnar sem Sean Penn lék svo eftirminnilega og hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir.

Nokkrum árum síðar fór Elle einnig að láta að sér kveða í sífellt stærri hlutverkum í kvikmyndum og hafa þær systur síðan sagt í ótal viðtölum að þeirra æðsti draumur væri að fá tækifæri til að leika hvor á móti annarri í bíómynd í fyrsta sinn. Þá telja þær ekki með að Elle kom fram í I Am Sam sem yngri útgáfa af Lucy því tæplega sé hægt að kalla það samleik þar sem þær Dakota léku ekki í sömu atriðunum auk þess sem Elle segist eiginlega ekkert muna eftir þeirri framkomu, enda bara tveggja ára þá. Með Næturgalanum rætist því draumur þeirra systra loksins og verður áhugavert að sjá útkomuna.

Saga Næturgalans er að hluta til sönn

Næturgalinn hefst í Frakklandi árið 1939 og teygir sagan sig til eftirstríðsáranna og allt til ársins 1995 þótt meginhluti hennar gerist eftir að Þjóðverjar hertaka Frakkland á vormánuðum 1940. Persónur sögunnar eru skáldskapur en atburðirnir í henni byggja að hluta til á sannri sögu Andrée de Jongh sem lagði sig m.a. í stórhættu við að bjarga flugmönnum og flugáhöfnum Bandamanna sem urðu strandaglópar í Frakklandi þegar vélar þeirra voru skotnar niður og koma þeim til Spánar þar sem breska sendiráðið tók við þeim. Starfaði hún náið bæði með frönsku andspyrnuhreyfingunni og leyniþjónustu Breta og gekk undir dulnefninu Næturgalinn.

Sagan er um systurnar Vianne og Isabelle sem hafa átt í innbyrðis samskiptaörðugleikum auk þess sem þær eru báðar upp á kant við föður sinn. Þær hafa hvor fyrir sig fetað sína braut og á meðan sú yngri og uppreisnargjarnari, Isabelle, fór til Parísar til að freista gæfunnar með ekkert allt of góðum árangri hélt hin jarðbundnari Vianne sig á heimaslóðunum í bænum Carriveau þar sem hún gerðist barnaskólakennari, giftist og eignaðist dóttur. Þegar Þjóðverjar knýja Frakka til uppgjafar á vormánuðum 1940 snýr Isabelle aftur til Carriveau og í ljós kemur að þær systur eiga þrátt fyrir allt meira sameiginlegt en þær héldu sjálfar.

Við förum ekki nánar út í söguþráðinn til að skemma ekkert fyrir þeim sem eiga e.t.v. eftir að lesa bókina og bendum þeim sömu á að rafræn útgáfa hennar á íslensku er m.a. fáanleg hjá Forlaginu og kostar aðeins 499 krónur.