Í vikunni vakti það athygli að Bayern Munchen tilkynnti að félagið myndi á næstu tveimur árum hætta með 9 og 10 ára lið félagsins. Þýska stórveldið er langt í frá það eina í Evrópu sem hefur tekið ákvörðun um að hætta með eða fækka yngri flokkum en stærð og orðspor félagsins er slíkt að mörgum þykir vegna þess vert að skoða hvaða ástæður gætu legið þarna að baki.

Þetta skref Bayern er í mótsögn við fréttir sem bárust frá Manchester City og vöktu mikla athygli fyrir ári síðan að félagið væri með elítulið fimm ára drengja sem æfði þrisvar sinnum í viku, fengi búninga frá félaginu og „væri farið með eins og litla atvinnumenn“ samkvæmt fyrrum þjálfara.

Í fréttatilkynningu sem birtist á heimasíðu Bayern var haft eftir Peter Wenninger, yfirmanni fimmtán ára og yngri liða félagsins að ákvörðunin væri tekin með hagsmuni barna í huga. Félagið teldi það skipta máli fyrir ung börn að prófa ýmsar íþróttir og að stunda tómstundir nálægt heimahögum. Hann vísaði til þess að langtíma-rannsóknir styddu þessa ákvörðun og að félagið fara að halda knattspyrnunámskeið fyrir fleiri börn á æfingasvæði sínu og víðar í kringum Munchen.

Ákvörðun Bayern fylgir stórum straumum í barna og unglingaþjálfun sem æ fleiri sem bera ábyrgð á hæfileikamótun aðhyllast. Heildrænni nálgun sem leggur ekki bara áherslu á endurteknar æfingar í tilteknu fagi heldur að ala upp heilsteypta einstaklinga með fjölbreytta hæfni. Jafnframt að draga úr snemmbundnu vali þar sem fáum er veitt tækifæri til að ná árangri.

Víðast hvar í heiminum er barna og unglingastarf í íþróttum mjög afreksmiðað og ungu hæfileikafólki er stýrt í æfingar og keppni sem líkjast fullorðinsíþróttum. Þannig hafa akademíur liða eins og Bayern Munchen ár hvert valið 12-24 leikmenn til að spila fyrir yngri flokka sína í hverjum árgangi. Í Bæjaralandi búa 13 milljónir manna og því er úrval leikmanna mikið í kringum þau atvinnumannafélög sem þar eru. Þó er sá hængur á að akademíurnar taka lítinn hluta leikmanna og ár hvert er endurskoðað hverjir halda áfram. Hjá sumum þýskum akademíum er meðaltími leikmanna hjá félaginu einungis tvö ár áður en þeim er skipt út fyrir aðra sem þá þykja orðnir betri. Þeir sem falla frá borði þurfa þá að finna sér annað félag en vandratað getur verið aftur upp á við. Frægasta dæmið er líklega fyrirliði Dortmund, Marco Reus sem var í akademíu félagsins sem ungur drengur en látinn fara 17 ára þar sem hann þótti of veikburða líkamlega til að ná í gegn. Eftir þrjú ár í Rot Weiss Ahlen keypti Borussia Mönchengladbach hann tvítugan og seldi svo aftur til Dortmund fyrir 17 milljónir evra þremur tímabilum seinna. Saga Reus er óvenjuleg fyrir þær sakir að hann er einn af mjög fáum sem koma tilbaka eftir að hafa verið sleppt lausum.

Þjóðverjar eru heppnir að búa við mjög sterkt áhugamannakerfi þar sem mörg knattspyrnufélög eru starfrækt út um allt land. Ákvörðun Bayern um að styðja frekar við það kerfi rímar við svipaðar áherslur hjá Rosenborg, AIK, Hoffenheim og fleiri stórum liðum undanfarin ár. Að styðja við nærumhverfið og grósku í félögunum í kring. Stefnu þessara félaga má móta við marga stóra kenningastrauma í hæfileikamótun.

Fyrst má nefna heildræna nálgun í hæfileikamótun sem leggur áherslu á að ala upp persónuna umfram íþróttamanninn. Þar ber að gæta að því að ungir krakkar hafi aðgengi að menntun, góðu atlæti, nálægð við fjölskyldu og vini og fjölbreyttum tómstundum. Mörg stór félög eru farin að takmarka verulega það að sækja unga leikmenn langt að í akademíur sínar þar sem þau finna að fábreytt líferni frá nánustu vinum og fjölskyldu getur drepið niður áhugahvöt. Mörg börn sem eru í akademíum í hinum ýmsu íþróttagreinum eyða jafnvel meiri tíma í bíl til og frá æfingum heldur en í íþróttagreininni og samanlagður tími bitnar á tíma með félögum, fjölskyldu og heimanámi.

Einnig má nefna sjálfákvörðunarkenninguna sem leggur áherslu á að börn og unglingar fái að taka ákvarðanir um eigin hag og að þau finni að þau eigi stóran hlut í eigin árangri, þannig styrkist innri áhugahvöt sem er nauðsynleg fyrir andlegt og líkamlegt úthald sem árangur í flestu krefst. Akademíur sem þvo búninga krakkanna, útvega þeim fótboltaskó og halda á töskunum þeirra draga úr sjálfsbjargarviðleitni sem er nauðsynleg fullorðnum í samkeppnisumhverfi.

Danskar rannsóknir á hæfileikafólki sem nær langt í sínum íþróttagreinum hafa líka sýnt að allir eiga sína eigin leið á toppinn, og þótt ýmsir hlutir á borð við foreldrastuðning og leiðbeiningu sérfræðinga skipti máli þá sé vandasamt verk að búa til eitt mót sem hentar öllum. Ítrekað hafa rannsóknir bent til þess að það að gefa ungum knattspyrnumönnum svigrúm til að stunda aðrar íþróttagreinar hafi gert þeim gott, líkamlega og andlega. Þá skiptir ekki endilega hvaða íþróttir þeir stunda með, aðalatriðið er að festast ekki í einhæfum æfingum. Sálfræðingur hjá enskri akademíu hefur látið hafa eftir sér að hann hrylli við því hversu mikið er búið að drepa niður leikgleði hjá krökkum sem koma inn í kerfið fyrir tíu ára aldur þegar þeir verða 14-15 ára og spyr sjálfan sig „hvað höfum við gert þeim?“

Að lokum hefur sænski fræðimaðurinn Johan Fallby bent á að það sem skipti mestu máli sé að búa eins mörgu ungu fólki og mögulegt sé eins góðar aðstæður og mögulegt er til að ná árangri umfram það að velja fáa úr. Þetta er líklega einn veigamesti lykillinn að því að Íslendingar geta átt lið á HM og EM í ýmsum greinum og unnið Óskarsverðlaun og Grammyverðlaun. Börn á Íslandi hafa nefnilega mikið sjálfsvald yfir eigin þróunarferli og einstakt aðgengi að íþróttum og tómstundum. Þess ber að geta að í 26 manna aðalliði Bayern eru tveir leikmenn sem ólust upp í Bæjaralandi, Thomas Muller sem gekk til liðs við félagið 11 ára og hefur verið einn besti leikmaður heims undanfarin áratug og Christian Fruchtl sem er þriðji markvörður félagsins og hefur verið þar frá 14 ára aldri en á enn eftir að spila leik fyrir aðalliðið. Það er líklegra að komast í aðallið Bayern ef maður elst upp í Frakklandi eða á Spáni heldur en í Bæjaralandi.

Ákvörðun Bayern verður örugglega ekki óumdeild. En hún er örugglega vel ígrunduð eins og flest sem þessi risi þýskrar knattspyrnu gerir. Og í takt við hljóðláta byltingu sem er víða að eiga sér stað í barna og unglingaíþróttum.