Rökkvi Vésteinsson, forritari og uppistandari með meiru, hefur boðið upp á óvenjulega en stórlega hressandi „lúðaskemmtun“ á meðan kórónuveiran hefur haldið flestum í heimahúsum.

Í gervum sem hann kallar Páskakanínan og Köngulóarskrípið hefur hann mætt fyrir framan blokkirnar í Kjarrhólmanum í Kópavogi og dansað lúðalega dansa. Með gjörningum þessum hefur hann hvatt íbúa til að dansa með sprellinu, en „skrípið“ hleypur þó í burtu ef einhver stígur út fyrir dyr, vegna hræðslu við farsóttina.

Rökkvi segir í samtali við blaðamann þetta vera með skemmtilegri gjörningum sem hann hafi tekið upp á, þó eldri dóttir hans deili ekki alveg sama spenningi.

„Hún skammaðist sín mikið og sagði að það gætu verið krakkar í hennar bekk sem byggju þarna og vissu þá hvað hún ætti mikinn lúðapabba. Ég sagðist vera með grímu hvort sem er,“ segir hann kátur.

Sá fyrir sér Brünhilde

Uppistandarinn rifjar upp merkan dag í sínu lífi, þann 2. maí, og eru nú liðin tólf ár síðan hann lenti í furðulegri stöðu, eins og hann orðar það. Á Fésbókarsíðu sinni birtir hann sögu af leigjandanum sem breytti lífi hans. Rökkvi skrifar:

„Ég var spurður hvort ég gæti leigt auka herbergið í íbúðinni minni til ungrar þýskrar konu í svona mánuð, sem mér leist fyrst ekkert vel á því ég var nýbúinn að vera með þvílíkan vitleysing að leigja þetta herbergi og var frelsinu feginn. Það leit líka á vissan hátt úr fyrir að það væri eitthvað að fara að gerast á milli mín og konu sem ég þekkti og þá hefði verið ópraktískt að hafa leigjanda.

Ég hugsaði að þetta væri samt örugglega sniðugt til að fá pínulitlar aukatekjur, þetta yrði bara stutt og þetta væri örugglega brussuleg og gróf þýsk kona með æði fyrir hestum og þessu dæmigerða sem Þjóðverjar hafa áhuga á við Ísland. Sá einmitt fyrir mér Brünhilde úr Fóstbræðraþáttunum og hugsaði að það væri ekki möguleiki að ég myndi hafa áhuga á þessari konu.
Ég fékk síðan að heyra það að hún ætti líka kærasta í Þýskalandi, sem myndi flytja hingað líka á endanum og hafði þá litlar áhyggjur á að hún myndi hafa þannig áhuga á mér heldur.

Þegar þessi þýska kona kom síðan til mín á Furugrundina til að flytja inn í herbergið brá mér mikið að sjá hana, því hún var lítil og fíngerð og sæt og eiginlega alveg nákvæmlega allt sem ég er veikur fyrir í konum.

Glaður og leiður

Ég gerði mér strax grein fyrir að ég var búinn að koma mér í vandræði og erfiða stöðu.

Verst var að þegar ég byrjaði að tala við hana varð ég bara hrifnari og hrifnari. Hún hafði til dæmis einhvern tímann spilað sömu nördaspil og ég, sem mér fannst einhvern veginn heillandi og einhver tenging í því, þótt ég hafi fyrir löngu hætt að spila þau. Ég gleymdi einhvern veginn alveg hinni konunni og það gufaði alveg upp.

Þessi mánuður var furðulegt tímabil þar sem ég var ýmisst glaður eða leiður yfir þessari stöðu.

Svaf í gamla rúminu hennar

„Einu sinni kom ég með börn systur minnar, sem voru ótrúlega sæt sem krakkar, í heimsókn til mín þegar ég vissi að hún yrði heima og lék við þau til að hún sæi hvað ég væri flinkur með börn, eða jafnvel hvað börn með mín gen gætu verið falleg. Ég sagði engum frá þessu en ég held að öll fjölskyldan mín hafi verið búin að skilja þetta og einhverjir vinnufélagar líka. Þegar hún flutti út var það viss léttir en líka mikil depurð og ég svaf í gamla rúminu hennar í nokkra daga eftir það, þótt mér þætti það ekki alveg heilbrigt andlega. Ég hélt að þetta væri bara búið og ekkert við því að gera.

En við héldum áfram að hittast hér og þar. Fyrst sjaldan en síðan einhvern veginn alltaf aðeins oftar. Á endanum ákvað ég að bjóða henni með mér til Grænlands í dagsferð sem ég leiðsagði og eftir það fórum við að hittast mjög oft. Á endanum sagði hún mér síðan að hún væri hætt með kærastanum í Þýskalandi og þá var ég fljótur að viðurkenna fyrir henni að ég hefði verið ástfanginn af henni allan tímann.

Hún var ekkert óánægð að heyra það.

Núna erum við búin að vera saman í næstum 12 ár, vera gift í næstum 10 og eigum tvær stelpur sem eru jafnvel sætari en þessi tvö sem ég kom með og sýndi henni fyrir löngu.“


Þau Rökkvi og Anne Steinbrenner, menntaður landslagsarkitekt og landslagskipuleggjandi. Myndi(r)n(ar) er(u) birt(ar) með leyfi þeirra.


Fjölskyldan saman: Þau Rökkvi og Anne með dætrunum Laufeyju (2009) og Emblu (2011).