Edgar Wright
Edgar Wright.

Myndir enska kvikmyndaleikstjórans og handritahöfundarins Edgars Wright (f. 1974) eru í miklu uppáhaldi hjá mörgu áhugafólki um kvikmyndir og þá kannski sérstaklega myndirnar Shaun of the Dead (2004), Hot Fuzz (2007), Scott Pilgrim vs. the World (2010), The World’s End (2013) og núna síðast Baby Driver (2017). Það bíða því margir eftir nýjustu mynd hans, Last Night in Soho, en hún er nú klár og bíður bara eftir að fá staðfestan frumsýningardag í kvikmyndahúsum hemsins. Vonandi gerist það fljótlega.

Last Night in Soho er flokkuð sem tryllir og hrollvekja og hefur Edgar nefnt í viðtölum að hann sæki innblásturinn í myndir eins og Don’t Look Now (1973) eftir Nicolas Roeg og Repulsion (1965) eftir Roman Polanski, auk þess sem hann er einlægur aðdáandi leikstjórans Georges A. Romero og þá sérstaklega myndar hans Dawn of the Dead frá árinu 1978. Fjallar myndin um unga stúlku sem telur sig himin hafa höndum tekið þegar hún fyrir einhvern dularfullan kraft ferðast aftur til sjöunda áratugar síðustu aldar og hittir söngvara einn Í London sem hún hefur lengi verið hrifin af. En eitthvað er ekki eins og það á að vera og brátt lendir stúlkan í skelfilegum hremmingum sem óvíst er hvort hún komist lifandi frá. Við munum fylgjast betur með þessari mynd í samantekt okkar á væntanlegum myndum hér á Fréttanetinu.

Skemmtileg og fróðleg grein í the Guardian

Shaun of the Dead posterÍ gær var birt skemmtileg grein í vefritinu The Guardian þar sem Edgar Wright segir frá tilurð myndarinnar Shaun of the Dead, hvernig hugmyndin að henni kviknaði, hvernig tökur gengu, hvaða stórleikkona hafnaði hlutverki í henni og ýmsu öðru fróðlegu, eins og t.d. þegar einn aukaleikarinn sem vissi ekki að hann væri að tala við leikstjórann spurði hann í miðjum klíðum hvort hann héldi ekki að þessi mynd færi beint á vídeó. Honum leist ekki betur en svo á atriðið sem hann var að leika í.

Edgar segir einnig frá því í greininni að hann hafi verið að spila Resident Evil-tölvuleikinn langt fram á nótt þegar mjólkin káraðist og hann ákvað að skokka út í búð og kaupa meira. „Það var dimmt úti og drungalegt og enginn á ferli. Skyndilega sló þeirri hugsun niður hvað ég myndi gera ef það birtist allt í einu uppvakningur. Í bandarískum myndum eru allir þungvopnaðir. En hvað myndi enskur og alveg vopnlaus maður gera? Þessi upplifun varð síðan að fyrsta atriðinu sem við tókum upp fyrir Shaun of the Dead, þegar Shaun fer skelþunnur út í búð þarna um morguninn og tekur ekki eftir því að allir sem hann hittir eru orðnir að uppvakningum.“

Þetta er aðeins brot af þeim skemmtilega fróðleik um gerð Shaun of the Dead sem Edgar segir frá í greininni og er ástæða til að hvetja aðdáendur hans og aðra áhugasama að lesa hana alla á The Guardian.