Síðastliðið ár hef ég leitað allra leiða til þess að leysa úr þeim meltingarvandræðum sem ég hef verið að glíma við og ég tel mig vera búin að finna leið í þeim efnum sem virkar fyrir mig. Yfir þetta tímabil hef ég talið að ég gæti mögulega þjáðst af ofnæmi eða óþoli, að ég sé viðkvæm fyrir glúteni og mjólkurvörum, auk þess sem ég taldi mig þjást af iðraólgu, sérstaklega þar sem ég varð betri af FODMAP matarræðinu.

Ég er hins vegar komin að þeirri niðurstöðu að vandræði mín séu komin til af því að meltingarflóran mín hafi komist í ólag og að ég þurfi að nýta það sem ég hef lært til þess að byggja hana upp. Ástæðan fyrir því er sú að atriði sem eru talin valda slíku ólagi eiga við um mig en ég tók til að mynda mikið af sýklalyfjum þegar ég var yngri, borðaði einhæft fæði og fékk matareitrun fyrir um það bil tveimur árum síðan, sem hefur líklega endanlega farið með meltinguna.

Á þessu liðna ári hef ég tekið námskeið sem innihélt þriggja vikna hreinsun hjá Guðrúnu Bergmann, spjallað við Matthildi náttúrulækningakonu, farið í ofnæmispróf, heimsótt heimilislækninn minn, fengið ráðgjöf hjá Ásdísi grasalækni, horft á ýmiskonar fyrirlestra og lesið mér til, en nú síðast las ég bókina Borðum betur eftir Rafn Franklín þjálfara sem er mjög áhugaverð og hjálpleg.

Það sem ég hef lært af þessu öllu saman og reynt á eigin skinni hefur mótað það hvernig ég kýs að haga mataræðinu mínu hér eftir með það að markmiði að koma meltingunni í lag. Ég er að minnsta kosti komin á þann stað að ég er dags daglega alveg ágæt og í þeim tilvikum sem ég er það ekki, veit ég yfirleitt upp á mig sökina. Eftirfarandi eru því ráðleggingar sem hafa nýst mér og ég mæli með.

Byrja á hreinsun

Eins og ég hef fjallað um þá byrjaði ég fyrir ári síðan á námskeiði hjá Guðrúnu Bergmann, sem samanstóð af þriggja vikna hreinsun. Þó svo að ég noti kannski takmarkað það fæði og þær leiðir sem Guðrún mælir með á námskeiðinu sínu, lærði ég engu að síður mikilvægi þess að byrja svona ferli á hreinsun, því það þarf að hreinsa út úr kerfinu til þess að geta farið að byggja þarma- og meltingarflóruna upp á nýtt.

Bæta meltingarflóruna

Ég horfði á fyrirlestur frá Lyfju þar sem Birna G. Ásbjörnsdóttir, doktorsnemi, fjallaði um mikilvægi meltingarflórunnar. Samkvæmt henni er mikilvægt að taka inn góðgerla, sem og trefjar fyrir góðgerlana, sem eru matvörur líkt og jógúrt, kombucha, súrkál, súrsað grænmeti og gerjaðir ostar.

Ásdís grasalæknir mælir auk þess með kimchi, sýrðum gúrkum, kefir, möndlu, kókos- og kasjúhnetujógúrti, eplaediki, misó og tempeh, sem og acacia trefjum, psyllium husk, grænmeti, ávöxtum, heilkornum, fræjum, hnetum og baunum, en hún segir einnig að mikilvægt sé að borða fjölbreytt (t.d. ekki sama morgunmatinn dag eftir dag).

Borða hreint fæði

Í bókinni sinn Borðum betur fjallar Rafn t.d. um hvað við getum lært af mataræði forfeðra okkar og leiðir lesendann í gegnum fimm skref til þess að umbylta mataræðinu. Hann mælir sérstaklega með hreinum mat og því að lágmarka hvítan sykur, unnar kornvörur og pakkamat, auk þess sem hann talar mjög gegn fræolíum (sem ég hafði ekki heyrt um áður en geri nú mitt besta til þess að sneiða framhjá). Þetta rímar við það sem Birna doktorsnemi ræddi í sínum fyrirlestri en hún talaði um að forðast sælgæti, gos, bakkelsi, þurrvörur og pakkamat (og að forðast almennt matvæli með löngum innihaldslýsingum).

Koma sér upp góðum venjum

Fyrst og fremst tel ég að það sé nauðsynlegt að koma sér upp góðum venjum almennt. Á síðast fyrirlestri sem ég fylgdist með hjá Ásdísi (ég fylgi fyrirtækjum á Facebook sem bjóða reglulega upp á fræðandi og hvetjandi fyrirlestra, líkt og Nettó, Lyfju og Now Foods Iceland) gaf hún eftirfarandi ráð í lokin fyrir bætt mataræði og heilsu; borðaðu heilnæma og hreina fæðu, auktu inntöku á trefjaríkri fæðu, notaðu súrkál eða taktu inn góðgerla, tyggðu matinn þinn vel, borðaðu í núvitund, drekktu nægan vökva, hreyfðu þig reglulega og dragðu úr streitu.

Ég er ennþá að vinna í því að bæta mína heilsu en ég finn mun á mér frá því að ég fór að gera þessar breytingar á mataræði mínu. Í dag drekk ég t.d. kombucha á hverjum degi, set súrkál með á diskinn minn af og til, drekk kefir um það bil annan hvern dag og er þessa dagana að reyna að koma því upp í vana að borða eitt, lítið lífrænt epli á dag (sem er ráðlegging frá Birnu). Einu sinni átti ég í erfiðleikum með að mun að taka vítamínin mín en nú tek ég góðgerla með matnum, C og D vítamín og lýsi á morgnana, og magnesíum eftir mat. Ég er auk þess mun duglegri við að drekka vatn.

Það hefur alls ekki verið mér auðvelt að breyta mínum venjum á þennan hátt en ég er búin að vera að glíma við þetta vesen svo lengi núna að ég verð einfaldlega að taka þessa ábyrgð á minni líðan, sem er öll að koma til. Stundum leyfi ég mér auðvitað eitthvað en æ oftar langar mig ekki til þess, því mig langar ekki að taka afleiðingunum af því. Það er bara svo gott að líða vel og það gerir alla þessa vinnu vel þess virði.