Ég er ennþá að vinna í því að koma meltingunni í gott horf og ákvað því að skrá mig á grunnnámskeið hjá Hildi í Heilsubankanum. Ég hef prófað ýmislegt í þessum efnum en kann að meta hvernig Hildur hefur sett fræðsluna upp; hún fer bæði yfir það sem maður þarf að taka út úr fæðunni, hverju eigi að bæta við og hversu lengi sé gott að taka svona hreinsun þar sem líkaminn fær hvíld til þess að laga það sem farið hefur úrskeiðis, áður en hægt er að setja ákveðnar matvörur aftur inn í mataræði manns.

Ég myndi ekki vera að huga svona að mataræðinu ef það væri ekki eitthvað að hjá mér. Ef ég væri ekki að glíma við ákveðin vandamál, sem ég tel að gætu versnað enn frekar ef ég held áfram á sömu braut, væri ég ekki að standa í þessu öllu saman. Ég myndi glöð halda áfram að borða af og til hamborgara, pizzur, bakkelsi og kökur í boðum, ef ég bara gæti! Ég hef hins vegar glímt við vindverki, uppþembu, kláða í fótum, bólur í andliti, munnangur, þreytu, svima og heilaþoku, auk þess sem mér finnst ég vera farin að finna fyrir óþægindum í liðum.

Það sem mér líkar við á námskeiðinu hjá Hildi er að hún fer yfir af hverju hún vill að maður taki ákveðna hluti út og útskýrir hvaða áhrif þessi matvæli hafa á mann. Ég er bara þannig að ég á erfitt með að hætta að borða eitthvað, eða bæta einhverju inn í mataræðið, ef ég veit ekki af hverju ég er að gera það. Að vita hvernig matvæli hafa neikvæð áhrif á mig og hvað önnur gera til þess að bæta meltinguna og næra mig verður til þess að ég geri þessar breytingar (næstum) með glöðu geði.

Eftir að hafa prófað mig áfram með ansi margt finnst mér líka gott að vita nákvæmlega hvaða vörur ég geti og eigi gjarnan að notast við. Á námskeiðinu erum við rúmlega 200 manns saman í Facebook hóp og þar er reglulega deilt uppskriftum og myndum af vörum sem maður má borða. Þar er einnig hægt að spyrjast ráða og fá upplýsingar frá hvert öðru um hvar hinir í hópnum hafa verið að finna hinar og þessar vörur, sem eru gjarnan eitthvað sem ég hef að minnsta kosti aldrei verslað áður.

Ég treysti líka því sem Hildur hefur að segja, vegna þess að hún fer yfir sína sjúkrasögu og allt það sem hún hefur gengið í gegnum sem varð til þess að hún náði fullkomnum bata, en það er augljóst að hún hefur kynnt sér allt það sem hún er að mæla með þegar kemur að mataræði og bætiefnum vel og vandlega. Hún er þegar búin að vera að kenna þetta námskeið í nokkur ár og er dugleg við að taka viðtöl við einstaklinga sem hafa verið hjá henni, sem geta sagt frá því hvernig þetta námskeið og mataræði hefur hjálpað þeim.

Hildur mælir ekki með því að taka allt út í einu heldur fer þess í stað yfir ákveðin atriði í hverri viku yfir fjögurra vikna tímabil. Þessum fjórum vikum er ætlað að kenna manni á prógrammið og venjast nýjum matarvenjum. Sumir sem taka þátt vilja taka allt út frá byrjun en persónulega finnst mér hafa verið þægilegt að taka þetta svona, eitt skref í einu. Það hefur að minnsta kosti verið nóg að gera hjá mér við að horfa á fyrirlestrana, fara í mismunandi búðir að finna réttu matvælin og prófa mig svo áfram með nýjar uppskriftir.

Ég er ekki komin svo langt að ég sé farin að finna miklar breytingar á mér ennþá en ég veit samt vel að það eru ákveðnir hlutir sem eru ekki að fara vel í mig, líkt og hveiti/korn og mjólkurvörur. Ég finn muninn á því að sleppa við slíkar vörur, því þá líður mér alveg ágætlega, en þegar ég leyfi mér eitthvað slíkt er ég fljót að finna einhvers konar viðbrögð, þá allra helst kláðann í fótunum, bólur og munnangur, svo dæmi séu tekin. Ég hlakka til þess að sjá hvað verður að nokkrum vikum liðnum, þegar ég verð búin að gera frekari breytingar og orðin meira sjóuð í þessu nýja mataræði.

Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.