Árið 2020 hefur reynst ferðafíklum erfitt. COVID-19 sjúkdómurinn hélt innreið sína með öllum þeim boðum og bönnum sem af honum orsökuðust, og þó umtalsvert hafi verið slakað á þeim síðastliðna mánuði þá er enn fjöldinn allur af fólki sem annað hvort treystir sér ekki í ferðalag sökum varúðar gagnvart faraldrinum — eða einfaldlega nennir ekki að standa í sóttkvíarbröltinu sem ferðalögum fylgir í augnablikinu.

Virtual Vacation vefsvæðið er því prýðilegasta dægrastytting fyrir ferðasjúklinga sem þjást um þessar mundir af innilokunarkennd innan landsteinanna. Hér er hægt að velja á milli hundruða göngutúra, bíltúra og flugtúra um veröldina gervalla, og þannig hægt að upplifa andrúmsloft hinna ýmsustu framandi staða án þess að hverfa frá skrifborðsstólnum eða sófanum. Einnig er í boði spurningaleikur þar sem valin er borg af handahófi og hægt er að spreyta sig á því um hvaða borg er gengið, ekið eða flogið yfir.

Að sjálfsögðu kemur þetta aldrei í staðinn fyrir raunveruleg ferðalög – og þau fjölmörgu fersku brögð, lyktir, hughrif og samskipti sem þau bjóða upp á – en vonandi styttir þetta ferðaþyrstum fáeinar stundir þangað til hægt verður að leggja land undir fót á ný.