Tíundi áratugurinn var tvímælalaust stórkostlegt tímabil fyrir bíómyndir. Mikil gróska var í iðnaðinum víðsvegar um heim, aukinna alþjóðlegra áhrifa fór að gæta með tilkomu internetsins um miðjan áratuginn, og samfélagsstraumar voru gjarnir á að benda á að einhverskonar allsherjar hrun myndi eiga sér stað árið 2000. Allt þetta, og sjálfsagt margt meira til, leiddi til nokkurs konar sprengingar af sköpunargáfu og frumlegheitum þegar leið undir lok aldarinnar. Við þekkjum öll klassíkina sem kom út á þessum tíma — myndir eins og The Sixth Sense, Being John Malkovich, The Matrix, The Insider, Office Space og þar fram eftir götunum.

Þó var í allri þessari sprengingu gríðarlegt magn mynda sem féllu hingað og þangað á menningarradarnum. Tveir áratugir eru nú fallnir í valinn síðan, þannig að nú er upp komin heil kynslóð sem missti alveg af þessu fáfundna góðgæti þegar það kom fyrst út, sökum þess að vera annað hvort of ung eða hreinlega ekki fædd. Sömuleiðis erum við hin eldri gjarnan tekin að gleyma þeirri snilld sem þessi áratugur gaf af sér — hversu oft hefur maður ekki séð eitthvað frábært, fyndið eða furðulegt og svo enduruppgötvað það einhverjum árum seinna, hafandi gleymt tilvist þess fullkomlega?

Við ákváðum því að skella í smávegis lista af myndum sem eiga það allar sameiginlegt að vera lítið í umræðunni í seinni tíð og gætu því hæglega hafa gleymst hjá mörgum. Horfið (eða horfið aftur) og njótið!

Suicide Kings (1997)

Eftir að Quentin Tarantino sló í gegn með Reservoir Dogs árið 1992 og svo enn rækilegar með Pulp Fiction árið 1994 þá tók við holskefla af eftirhermum. Skyndilega snerist allt í Hollywood um menn í svörtum jakkafötum með lakkrísbindi sem dreifðu hipp og kúl díalógurdemöntum út um allt við undirspil frumlega valinna 60s og 70s laga, á milli þess sem þeir skutu hvorn annan í andlitið og dóu svo allir í lokin. Sem dæmi má nefna myndir eins og Things To Do In Denver When You’re Dead (1995), 2 Days In The Valley (1996) og 8 Heads in a Duffel Bag (1997). Suicide Kings kom út í seinni hluta þessarar bylgju og var jafnan dregin í dilka með þessum eftirhermum, mestmegnis vegna þess að hún er svört gamanmynd með Christopher Walken í aðahlutverki. Hún fékk þó ekki alveg sanngjarna meðferð, því ef við tökum Tarantino-áhrifin út úr myndinni (þau eru jú þarna, en ekki eins mikil eins og sagt var) þá er hér á ferð skarpt skrifuð og vel leikin bíómynd, með einum skemmtilegasta leikara heims í toppformi. Ekki alveg meistaraverk, en vel þess virði að sjá.

Six-String Samurai (1998)

Hér má við fyrstu sýn auðveldlega halda að um sé að ræða aðra Tarantino-eftirhermu, en Six-String Samurai hrærir saman nógu skringilegri blöndu af öðru hráefni að úr verður eitthvað algjörlega einstakt. Má jafnvel segja að hún líkist verkum Tarantino einna helst í því hvað hún einmitt dregur saman mikið af ólíkum áhrifavöldum til að mynda sína eigin furðulegu heild. Þessi gerist semsagt í efsöguheimi þar sem Rússland vann kjarnorkustyrjöldina í kjölfar þess að kalda stríðið snögghitnaði. Söguhetjan, Buddy (sem lítur auðvitað ekkert út eins og Buddy Holly) er á ferð gegnum eyðimörkina, með gítarinn sinn í annarri hendi og samúræjasverðið í hinni. Ferð hans er heitið til Lost Vegas, þar sem Elvis hefur ríkt sem konungur í 50 ár en er nýverið dáinn. Á leið sinni til Vegas lendir Buddy í hinum ýmsustu ævintýrum í eyðimörkinni, og er skemmst frá því að segja að hér er á ferð einstök blanda af Mad Max, brimbrettarokki og rokkabillí, krydduð með súrrealískum gálgahúmor. Þessi svíkur engan.

ATH: Ef stiklan hér að ofan heillar, þá er hægt að horfa á alla myndina hér.

What About Bob? (1991)

Þessari munum við eflaust mörg eftir, en þó er þetta ein af minna frægum myndum meistara Bill Murray. Hér er hann í hlutverki manns að nafni Bob sem þjáist af stórfelldri áráttu-þráhyggjuröskun. Þegar geðlæknir hans (leikinn af hinum ávallt stórkostlega Richard Dreyfuss) — sem hann hefur tekið afar sterku og alls óheilbrigðu ástfóstri við — bregður sér í frí, tekur Bob upp á því að einfaldlega elta hann og heimsækja fjölskylduna í sumarhúsinu. Stífum og húmorslausum geðlækninum þykir það afar miður, en fjölskylda hans tekur Bob hins vegar opnum örmum (vegna þess að hann er skemmtilegur, ólíkt fjölskylduföðurnum), og aðeins er tímaspursmál hvenær sýður upp úr. Hér er um að ræða drepfyndna gamanmynd með stórt hjarta, leiftrandi handrit og eina minnisstæðustu persónu sem Murray hefur nokkurntímann leikið… fyrir utan mögulega sjálfan sig.

A Simple Plan (1998)

Kvikmyndagerðarmaðurinn Sam Raimi er mörgum kunnugur fyrir grínhryllingsmyndirnar Evil Dead og Army of Darkness, ásamt fyrstu tveimur Spider-Man myndunum með Toby Maguire í aðalhlutverki. Þegar minnst er á kauða er þó sjaldnar rætt um þennan gimstein sem hann leikstýrði árið 1998, þar sem efnistökin eru ívið alvarlegri. Enginn er skorinn í tvennt með keðjusög og enginn sveiflar sér á milli bygginga. Hér er þess í stað sígilda dæmisögu að finna, um gott fólk sem freistast til vondra gjörða. Þegar hjónakornin Hank og Sarah (leikin af Bill Paxton og Bridget Fonda) finna tösku fulla af peningum nálægt brotlentri flugvél í skóginum á heimaslóðum sínum upphefst heljarinnar siðfræðiglíma. Nægir að segja: ef þú hefur ekki séð þessa, slepptu því alfarið að lesa um hana. Finndu hana bara og sjáðu hana. (Við mælum einnig með því að horfa einungis á fyrri helming stiklunnar hér fyrir neðan.)

In The Mood For Love (2000)

Leikstjórinn Wong Kar-Wai, sem kemur frá Hong Kong, er margrómaður fyrir vald sitt á samspili tónlistar og myndmáls, og virðist hann búinn einhverjum rammgöldróttum hæfileika til að blása einstakri tegund af angurværu andrúmslofti inn í verk sín. In The Mood For Love er lýsandi dæmi um báða þessa hluti, enda er hér á ferð ein af hans ástsælustu myndum. Hér er sögð saga tveggja nágranna á sjöunda áratuginum í Hong Kong, sem hvort um sig eiga maka sem sjaldnast eru heima, og tekur þeim hvorum um sig að gruna að makar þeirra eigi í leynilegu ástarsambandi. Hægt og rólega, í sögu sem sögð er að miklum hluta til gegnum myndmál, fáum við að kynnast þeim og sjá samband þeirra dýpka og dafna. In The Mood For Love var tilnefnd til Gullpálmans á Cannes-hátíðinni og vann til fjöldamargra annarra verðlauna víðsvegar um heim, enda er þetta gullfalleg hugvekja um einmanaleikann, nándina, og merkingu bilsins þar á milli.

The Man Who Knew Too Little (1997)

Hér er aftur á ferð meistari Bill nokkur Murray, og aftur er um að ræða eitt af hans lítt þekktari hlutverkum. The Man Who Knew Too Little snýst um viðkunnanlegan aula sem heldur að hann sé að taka þátt í umsvifamiklum hlutverkaleik en dregst þess í stað fyrir misskilning inn í alþjóðlegan njósnavef, með afdrifaríkum (og jafnframt stórfyndnum) afleiðingum. Hér fær Murray að leika nokkurn veginn lausum hala, og eins og sagan hefur sýnt þá er yfirleitt best að bara leyfa honum það. Mikilfengleg skemmtun, þó hún hafi ekki vakið neina sérstaka lukku á sínum tíma. Þess má til gamans geta að þriðja mynd leikstjórans David Fincher, The Game, kom út á sama ári með Michael Douglas í aðalhlutverki, og þóttu þessar tvær hafa ívið svipað viðfangsefni, þó svo efnistökin hafi verið ansi ólík. En það er jú bara eins og gengur og gerist í Hollywood.

Pleasantville (1998)

Pleasantville fjallar um tvíburasystkini, David og Jennifer, sem finna fjarstýringu sem sogar þau inn í heim sjónvarpsþáttar frá sjötta áratugnum, sem gerist í bænum Pleasantville. Í Pleasantville er allt svart og hvítt, eldur er ekki til, allir vegir út úr bænum leiða bara aftur inn í hann, og íbúarnir eru sáttir og saklausir. Systkinin reyna í fyrstu að spila sínar rullur sem skyldi, en mannlegu þættirnir taka svo að grípa óhjákvæmilega inn í. Smátt og smátt taka bæjarbúar að læra frá systkinunum ný og spennandi hugtök, svo sem listir, bókmenntir og kynlíf, og æ fleiri þeirra byrja skyndilega að taka á sig lit frekar en að vera svarthvít. Ráðamönnum bæjarins líst síður en svo á blikuna og ákveða að grípa í taumana. Myndlíkingin sem liggur að baki Pleasantville er kannski ögn gagnsæ og einbrotin, en hér er engu að síður frábærlega leikið og skemmtilega skrifað gamandrama sem tæklar þemu sem eiga vel upp á pallborðið á okkar tímum.

Flawless (1999)

Flawless er helst merkileg fyrir það að hér mættust í eina skiptið tveir virtustu leikarar sinna kynslóða, Philip Seymour Hoffman heitinn og Robert DeNiro, og er það ekki ómerkari maður en Joel Schumacher sem leikstýrir þeim hér. Hoffman leikur trans-dragdrottninguna Rusty, sem býr í íbúðarhúsi í New York og á nöldursama þröngsýnissegginn Walter (DeNiro) fyrir nágranna, og er gerólíkur lífsstíll og viðhorf þeirra orsök ófárra rifrildanna á stigaganginum. Þegar Walter fær heilablóðfall og lamast að hluta til leitar hann með talsverðum trega til nágranna síns til að fá raddþjálfun sem hluta bataferilsins. Upphefst hægt og rólega með þeim vinátta… en auðvitað er þetta Schumacher-mynd, og því eru glæpir og önnur ansans vandræði ekki langt undan. Þrátt fyrir dræmar viðtökur bæði í miðasölunni og meðal gagnrýnenda á sínum tíma er hér að finna áhugaverða og blæbrigðaríka mynd sem er ekki síst þess virði að sjá fyrir stórkostlegt samspil tveggja stakra leiklistarmeistara.

The Emperor’s New Groove (2000)

Hér er á ferð ein vanmetnasta og lítt þekktasta Disney-teiknimynd sem gerð hefur verið. Sökum ósættis meðal framleiðenda í þróunarferli hennar lenti hún milli tannhjólanna á markaðsmaskínu Disney og komst því aldrei í hendurnar á réttum markhópi meðan hún var til sýninga í kvikmyndahúsum, með þeim afleiðingum að þessi stórkostlega skemmtun fór framhjá flestum og var í þokkabót gjarnan misskilin af þeim sem á hana horfðu. Hér er sagt frá Kuzco, grimmum og skeytingarlausum keisara Inkaveldisins, sem lendir í því bannsetta óláni að norn sem er jafnframt ein af hans fremstu ráðgjöfum breytir honum í lamadýr. Hann nær þó að sleppa við illan leik og upphefst þá lærdómsríkt og skoplegt ferðalag hins unga og ofdekraða keisara í gegnum landið sem rænt var frá honum. Hér er einvalalið hæfileikafólks á ferð í raddhlutverkum, og má þar meðal annars telja til David Spade, John Goodman, Eartha Kitt, Patrick Warburton og Tom Jones. Ef þú átt eftir að sjá þessa mælum við sterklega með að bæta úr því!

Hard Eight (1996)

Hard Eight er fyrsta bíómynd leikstjórans háttvirta Paul Thomas Anderson, en eftir hann síðan þá hafa meðal annars komið út myndirnar Boogie Nights, Magnolia, Punch-Drunk Love og There Will Be Blood. Hér örlar á mörgu þess sem síðar myndi koma til með að einkenna feril þessa meistara, svo sem löngum tökum og ýmsum öðrum sjónrænum tiktúrum. Hard Eight gerist í köldum heimi spilavítanna í Nevada, og fjallar hún um vinskap sem tekst með John (John C. Reilly) og hinum mun eldri Sydney (Philip Baker Hall), sem nokkurn veginn gengur honum í föðurstað. Inn í líf þeirra flækjast svo gengilbeinan Clementine (Gwyneth Paltrow) og öryggisvörðurinn Jimmy (Samuel L. Jackson), og upphefst ástarþríhyrningur sem á eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar á líf þeirra allra. Framúrskarandi persónusköpun, stórgóður leikur og frábær kvikmyndataka gera þetta að verðugu frumverki þessa ástsæla leikstjóra.

El Mariachi (1992)

Aftur er hér á ferð fyrsta verk frægs leikstjóra, en í þetta sinn er það Robert Rodriguez sem um ræðir. Helst hefur hann gert garðinn frægan fyrir From Dusk Till Dawn, spennuhrollvekjuna sem hann leikstýrði til hálfs við Quentin Tarantino; Sin City, sem hann leikstýrði eftir teiknimyndasöguseríu Frank Miller; og spennumyndina Desperado með Antonio Banderas í aðalhlutverki, en sú er einmitt Hollywood-endurgerð þessarar. Fengu áhorfendur hér í fyrsta sinn að berja augum hin einstaklega skemmtilegu kvikmyndatökustílbrigði sem Rodriguez varð síðar frægur fyrir. Hér er sögð saga mexíkósks farandsöngvara sem kemur inn í smábæ og verður fyrir því að vondir menn fara mannavilt á honum og öðrum vondum manni, með ljómandi æsilegum afleiðingum. Þessi var gerð fyrir litla peninga og það sést, en í þessu tilfelli er það kostur frekar en löstur, enda er Rodriguez frægur fyrir að geta sinnt nánast öllum hlutverkum á kvikmyndasetti sjálfur, og hér skín úr hverjum ramma einskær ást á forminu. Stórgóð skemmtun.

Open Your Eyes (1997)

Open Your Eyes (eða Abre Los Ojos) er önnur mynd spænsk-síleska leikstjórans Alejandro Amenabar, og líkt og sú fyrir ofan hana á þessum lista er hún upprunaleg útgáfa mun frægari Hollywood-endurgerðar, sem í þessu tilfelli hét Vanilla Sky og skartaði Tom Cruise og Penelope Cruz í aðahlutverki (en hún lék einnig sama hlutverk í þessari mynd). Open Your Eyes fjallar um myndarlegan ungan mann sem nýtur mikillar kvenhylli en er kannski helst til mikill glaumgosi og ekki sá samviskusamasti. Hann lendir í bílslysi sem afskræmir andlit hans, og í kjölfarið á því taka undarlegir atburðir að gerast sem fá hann til að efast um tök sín á raunveruleikanum. Mörgum þykir Open Your Eyes betri en endurgerðin, sökum hrárri efnistaka, heilsteyptari leikstjórnar og sögubreytinga sem gerðar voru í seinni myndinni. Ef þú ert að leita að listilega samsettum geðtrylli þarftu ekki að leita lengra.

Grosse Pointe Blank (1997)

Grosse Pointe Blank er ein af þessum myndum sem ná að blanda saman gerólíkum geirum á þann hátt að úr verður eitthvað alveg stórfurðulega nýtt. Hér má segja að sé blandað saman spennusögu og rómantískri gamanmynd, og svo úðað smávegis af siðfræði- og heimspekivangaveltum ofan á, þó svo tekið sé ávallt á hlutunum með léttleikann í forgrunni. Þessi fjallar um leigumorðingja nokkurn, Martin Blank (John Cusack), sem neyðist til að taka að sér launmorð í heimabæ sínum á sama tíma og endurmót útskriftarárgangs hans í menntaskóla á að eiga sér stað. Þegar þangað er komið hittir hann fyrir menntaskólaástina, Debi Newberry (Minnie Driver), og taka þau hikandi að endurvekja tengslin. En Martin er ekki eini leigumorðinginn í bænum — hann á sér óvini sem eltu hann uppi, þar á meðal hinn gargandi fyndna Dan Aykroyd, sem er hér í einu af sínum minnisstæðustu hlutverkum. Grosse Pointe Blank er bráðskemmtileg svört kómedía sem skartar frábærum leik frá Cusack, Driver og Aykroyd, glimrandi handriti og rösklega leikstýrðum bardagaatriðum. Mælum hiklaust með þessari.

The Long Kiss Goodnight (1996)

The Long Kiss Goodnight er einstaklega vel heppnuð grínspennumynd úr smiðju handritahöfundsins Shane Black, en hann á einnig að baki myndirnar Kiss Kiss Bang Bang, The Last Boy Scout og Lethal Weapon, svo eitthvað sé nefnt. Þessi snýst um konu að nafni Samantha (Geena Davis) sem þjáist af minnisleysi sem hún er engu nær um átta árum seinna. Eftir að hún fær heilahristing uppgötvar hún skyndilega að hún ber yfir bardagakunnáttu sem hún kann ekki deili á, og í kjölfarið taka að dúkka upp æði skuggalegir einstaklingar sem vilja eiga við hana orð. Hún hefur samband við einkaspæjarann sinn, Mitch (Samuel L. Jackson) og verður úr heljarinnar ferðalag. Auk þess að vera uppfull af stórskemmtilegum hasar hefur The Long Kiss Goodnight einnig til að bera aðalsmerki Shane Black, sem er leiftrandi kímni í orðaskiptum. Einnig má henni það til frægðar telja að hér er á ferð fyrsta eiginlega aðalhlutverk Samuel L. Jackson, en fyrir þessa mynd hafði hann einvörðungu sést í aukaleikararullum. Hefur Jackson sjálfur látið hafa eftir sér að þetta sé uppáhaldsbíómynd hans af öllum þeim sem hann hefur leikið í. Verra gæti það nú verið.

A Midnight Clear (1992)

Þessi svipmikla hugvekja gerist í seinni heimsstyrjöld í desember 1944 og segir frá sex manna hersveit bandamanna sem sendir eru í yfirgefinn franskan kastala nálægt bardagalínunum til að njósna um hreyfingar þjóðverja. Áður en langt um líður komast þeir að því að þeir eru ekki einir á svæðinu, en sambærilega stór sveit þjóðverja er með aðsetur nálægt þeim. Smátt og smátt komast þeir þó að því að þessir þjóðverjar eru ekki í vígahug, og fer svo að sveitirnar tvær ákveða varfærnislega að efna til vopnahlés yfir jólatímann. Hér er að finna nánast óaðfinnanlega gerða dæmisögu sem er jafnan talin lýsa firringu og hryllingi stríðs mun betur en stærri og dýrari stríðsmyndir. Ethan Hawke, Gary Sinise, Peter Berg og Kevin Dillon skila allir mögnuðum leik, og handritið er skrifað af fákunnri natni og alúð. Þessi lætur algjörlega engan ósnortinn.