Ástralska fyrirsætan Maria Thattil var krýnd Miss Universe Ástralía í október og vinnur einnig í mannauðsmálum hjá ástralska ríkinu. Hún er með BA-gráðu í sálfræði og mastersgráðu í mannauðsstjórnun. Maria segir að þrátt fyrir sína miklu reynslu og hæfni að ókunnugir efist um að hún hafi náð á þann stað sem hún er í dag út af því að hún er klár og hæfileikarík. Maria segir að hún finni oft fyrir fordómum því hún sé of aðlaðandi.

Maria segir að hún hafi fundið fyrir þessum fordómum allt sitt líf og að stúlkur í bekk með henni í háskóla hafi til dæmis sett spurningamerki við það að hún hafi fengið inngöngu í sálfræðinámið. Hún telur einnig að sér hafi verið mismunað í atvinnulífi vegna fegurðarinnar.

„Þegar ég var í verknámi í upphafi ferilsins var mér sagt að ég þyrfti að vera einstaklega vinaleg við fólk því ég væri sæt svo að það héldi ekki að ég væri góð með mig,“ segir Maria í viðtali við news.com.au.

„Það var kvenkyns yfirmaður sem sagði það og það er niðurdrepandi.“

Fegurðardrottning.

Maria rifjar upp nokkur skýr dæmi um mismunun að eigin sögn, til dæmis þegar að önnur manneskja í mannauðsdeildinni sagði að hún hefði fengið starfið því karlkyns starfsmenn hrifust að útliti hennar, þrátt fyrir að Maria hefði farið í atvinnuviðtal í gegnum síma hjá tveimur konum. Þá rifjar hún einnig upp þegar að karlkyns yfirmaður hnýtti í glamúrkjólana hennar og hve mikið hún málaði sig fyrir vinnuna.

Þó Maria geri sér grein fyrir að það sé í eðli mannsins að dæma bók af kápunni þá vill hún segja við lesendur að upplifun fólks af þér ákvarði ekki hvernig manneskja þú ert. Maria segst einnig finna fyrir fordómum því hún sé komin af indverskum innflytjendum í Ástralíu.

Maria opnar sig um að fordómar geti verið alls konar.

„Ég held að það sé mikilvægt að viðurkenna að fegurðarstaðlar í samfélagi okkar eru breytilegir. Núna eru hlutir sem eru mér náttúrulegir í tísku, hvort sem það er húðlitur minn eða stórar varir. Núna eru fjölmiðlar og samfélagið búið að ákveða að það sé aðlaðandi.“

Maria segist finna fyrir því að hún njóti ákveðinna „forréttinda“ því hún passi inn í „ákveðna staðla“ en segir jafnframt að það sé mikilvægt að opna sig um allar birtingarmyndir fordóma.

„Hafandi þessi forréttindi þá þýðir það að ég þarf að bera þá ábyrgð og tala um hluti sem skipta máli en ég hef einnig orðið fyrir fordómum, ég hef orðið fyrir aðkasti og ég hef verið útilokuð því ég hef ekki alltaf mætt ímyndinni um að vera farsæl, falleg, verðug eða verðmæt.“