Eruð þið í vandræðum hvað eigi að vera í kvöldmat? Ekki hafa áhyggjur – þessi fiskréttur sem ég fann á bloggsíðunni Cotter Crunch er fullkominn kvöldmatur og stútfullur af hamingju.

Pistasíulax með gljáðum gulrótum

Hráefni:

3 laxaflök
¼ bolli ólífuolía
3 msk. hlynsíróp
½ tsk chili flögur eða paprikukrydd
½ msk. rifin engiferrót
1 tsk. hvítlaukur, smátt saxaður
1 msk. eplaedik eða balsamikedik
salt og pipar
450 g gulrætur, í smærri kantinum
skallotlaukur
sítróna
steinselja
½ bolli pistasíuhnetur, malaðar

Aðferð:

Hitið ofninn í 200°C. Geymið laxinn á disk í ísskáp þar til komið er að því að elda hann. Blandið olíu, sírópi, chili eða papriku, engiferi, hvítlauk, ediki, salti og pipar saman í skál. Raðið gulrótunum á ofnplötu og penslið þær með helmingnum af sírópsblöndunni. Bakið í 10 mínútur. Hækkið hitann í 220°C. Raðið laxaflökunum á milli gulrótanna á plötunni. Bætið skallotlauk sem búið er að skera í sneiðar og hálfri sítrónu, sem búið er að skera í sneiðar, við á plötuna. Kreistið hinn helminginn af sítrónunni yfir laxinn og grænmetið. Kryddið með salti og pipar og penslið síðan laxinn og gulræturnar með restinni af sírópsblöndunni. Bakið í 7 mínútur. Takið úr ofninum og nuddið pistasíuhnetunum á laxaflökin. Setjið aftur í ofninn og grillið í 2 til 3 mínútur þar til laxinn er eldaður og grænmetið steikt, ekki lengur en í 4 mínútur. Skreytið með ferskri steinselju og berið fram.