Töframaðurinn og gjörningalistamaðurinn David Blaine er enn við sama heygarðshornið. Nýverið tók kappinn upp á því að blása upp 50 helíumblöðrur og nota þær til að fljúga í klukkutíma yfir eyðimörkina í Arizona.

Blaine gaf út straum á YouTube-síðu sinni þar sem hann tíundar þennan óvenjulega gjörning, sem hann nefnir Ascension („Uppstigning“). „Hver einasti gjörningur sem ég hef framkvæmt hefur snúist um úthald og hugmyndina um að komast út fyrir takmörkin á því sem ég hélt að væri mögulegt,“ sagði Blaine áður en í loftið var haldið. „Ég get ekki ímyndað mér að margir myndu láta sig dreyma um að gera þetta.“

Afrekið átti sér stað á miðvikudagsmorgun. Ætlaði Blaine sér að komast í 18.000 fet (5486m), en endaði hann þó með því að komast alla leið í 24.900 fet (7589m) áður en hann sleppti blöðrunum og ferðaðist með fallhlíf aftur til jarðar.

Hinn 47 ára gamli Blaine er löngu orðinn heimsfrægur fyrir allskyns dæmalausa gjörninga. Hefur hann meðal annars haldið niðri í sér andanum í 17 mínútur, hangið í 44 daga án matar í glærum kassa yfir Thames-ánni í London, og verið grafinn lifandi í 7 daga. Hefur hann verið að auglýsa þennan nýjasta gjörning síðan snemma í ágúst, þegar hann gaf út fyrstu snöggstikluna.

Sjáið afrekið hér: