Florence Pugh

Leiklistarferill Florence Pugh hefur þróast með ævintýralegum hætti síðan kvikmyndaunnendur utan Bretlands fóru fyrst að taka eftir henni. Fyrir tveimur árum höfðu tiltölulega fáir heyrt hennar getið og því síður séð hana leika. Í dag, tveimur árum síðar, er hún orðin ein eftirsóttasta leikkonan í Hollywood þar sem allir stóru framleiðendurnir biðla nú til hennar í röðum með handritin og pennana (og ávísanirnar) á lofti.

Florence, sem er fædd 3. janúar 1996, er nú á forsíðu bresku útgáfunnar af júníblaði tísku- og lífsstílsritsins Elle. Í blaðinu er einnig að finna ítarlegt og fróðlegt viðtal við hana eftir Hönnuh Nathanson og er það prýtt mörgum glæsilegum myndum eftir Liz Collins. Forsíðuna, myndirnar og viðtalið má einnig sjá og lesa í heild sinni á vef Elle.

Ekki langur, en glæsilegur ferill

Sá sem þetta skrifar sá Florence fyrst sumarið 2018 í aðalhlutverki myndarinnar Lady Macbeth eftir William Oldroyd, en hún er jafnframt önnur bíómyndin sem Florence lék í og hafði verið frumsýnd í Bretlandi í apríl 2016. Þetta var tiltölulega „lítil“ mynd, fjármögnuð af einkaaðilum, en var því betur gerð, metnaðarfull og vel leikin, enda sópaði hún að sér tilnefningum og síðan verðlaunum á hátíð óháðu bresku kvikmyndasamtakanna, BIFA, árið 2017. Auk þess hlaut hún m.a. tvær tilnefningar til BAFTA-verðlauna, fyrir handritið og sem besta mynd ársins.

Eldri myndir Florence Pugh
Byrjunarverkefni Florence Pugh voru m.a. myndin The Falling, sjónvapsserían Marcella
og myndin Lady Macbeth, en hér má sjá tvö þekktustu kynningarplaköt hennar.

Það sem stóð upp úr í Lady Macbeth var algjörlega frábær framkoma og leikur hinnar 19 ára gömlu Florence Pugh sem sagði manni samstundis að þarna væri á ferðinni leikkona sem kæmist bara eiginlega ekki hjá því að verða stórstjarna ef hún héldi áfram að leika. Og ég var ekki einn um að hafa fengið þetta á tilfinninguna eftir að hafa horft á Lady Macbeth enda varð Florence í kjölfar myndarinnar ein umtalaðasta leikkonan í Bretlandi.

Það mikla umtal var að vísu ekki alveg allt tilkomið vegna Lady Macbeth því bæði hafði fyrsta myndin sem hún lék í, sálfræðidramað The Falling, sjónvarpsmyndin Studio City og svo leikur hennar í morðgátuseríunni Marcella, lagt sín fræ í þann svörð.

Florence Pugh 2018-myndir
Myndir ársins 2018 sem Florence lék í: The Commuter, King Lear, Outlaw
King, Malevolent og svo sjónvarpsserían The Little Drummer Girl.

Orðsporið á flug

Á árinu 2018 byrjaði svo ferill Florence að blómstra með miklum hraða og orðspor hennar að berast hratt vestur um haf. Þá lék hún á móti Liam Neeson í The Commuter, á móti Emmu Thompson, Anthony Hopkins, Jim Broadbent og Emily Watson í sjónvarpsmyndinni King Lear (þar sem hún lék Cordeliu), á móti Chris Pine í hinni (sann)sögulegu The Outlaw King og svo aðalhlutverkin í bresku njósna- og spennuþáttunum The Little Drummer Girl og hrollvekju Olafs de Fleur Johannessonar (Kurteist fólk, Borgríki), Malevolent.

Florence Pugh
Myndirnar þrjár sem Florence Pugh lék í á árinu 2019 voru
Fighting With My Family, Midsommar og Little Woman.

Á árinu 2019 má svo segja að hún hafi algjörlega slegið í gegn í þremur myndum. Fyrst var það sannsögulega myndin Fighting With My Family eftir Stephen Merchant, en hún var m.a. framleidd af Dwayne Johnson sem einnig lék sjálfan sig í henni, svo hin dularfulla og hrollvekjandi Midsommar eftir Ari Aster sem fylgdi þar eftir sinni fyrstu mynd, Hereditary, og að lokum myndin Little Woman eftir Gretu Gerwig þar sem Florence lék Amy, eina af March-systrunum, og var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir þann leik.

Með hlutverkinu í Little Woman má segja að Florence hafi svo gott sem flogið yfir síðustu hindrunina á leið sinni á toppinn því hún varð þar með öllum í bandaríska kvikmyndabransanum kunn. Þess utan elskuðu bandarískir áhorfendur túlkun hennar á Amy í þessari frægu og dáðu sjálfsævisögu Louisu May Alcott.

Fjölbreyttir leikhæfileikar

Þegar litið er yfir þennan farna veg í leikferli Florence Pugh vekur það athygli hversu gjörólíkar persónur hún hefur leikið og þar með hversu ólíkar persónur hún er fær um að skapa og túlka.

Sjálf hefur hún sagt í viðtölum að þessi fjölbreytni sé tilviljun og hafi ekki á nokkurn hátt verið plönuð fyrir fram enda hafi hún aldrei haft efni á því að hafna boði um hlutverk. Hún segist hins vegar hafa verið alveg ótrúlega heppinn að þessu leyti því ef hún gæti ráðið þessu sjálf myndu hlutverkin sem hún tæki að sér einmitt vera fjölbreytt … vegna þess að það sé það skemmtilegasta við leiklistina; að fá tækifæri til að túlka sem flestar gjörólíkar manneskjur og alltaf nýja í hvert sinn.

Næsta mynd: Black Widow

Black Widow
Black Widow: Aðalplakat myndarinnar og svo sérplaköt með þeim
Scarlett Johansson og Florence Pugh í hlutverkum sínum.

Næsta mynd Florence Pugh er Marvel-myndin The Black Widow, en hún er hliðarsaga við Avengers-seríuna og geta lesendur kynnt sér hana nánar í samantekt okkar yfir væntanlegar myndir kvikmyndahúsanna. Þar leikur hún fóstursystur Svörtu ekkjunnar sem Scarlett Johansson leikur og segja heimildir að í myndinni sýni hún ekki bara á sér nýja hlið sem leikkona heldur einnig að hún er fær um ótrúlega líkamlega tilburði og er liðug sem köttur. Er sagt að þessir áður leyndu aukahæfileikar hennar hafi komið sér mjög vel í bardagaatriðunum.

Þótt Florence sé eflaust með ótal tilboð og handrit á náttborðinu vitum við þó aðeins um eina aðra mynd sem staðfest hefur verið að hún leiki í en það er myndin Don’t Worry, Darling sem er jafnframt önnur mynd Oliviu Wilde sem leikstjóra. Á meðal mótleikara Florence í henni verða Chris Pine, Shia LaBeouf og Olivia Wilde sjálf. Við munum bæta nánari umfjöllun um þessa mynd við í væntanlegu-samantektinni áður en langt um líður.

Einkalíf og slúður

Þess má að lokum geta að á þessu ári hefur einkalíf Florence verið eitt eftirlætisefni slúðurdálkahöfunda og þá einkum samband hennar við unnustann, Zack Braff, sem hófst í janúar að því best er vitað, en Zack er 45 ára og því 21 ári eldri en hún.

Óhætt er að segja að Florence hafi brugðið þegar ömurlegustu netverjarnir og nettröllin sem finna hjá sér þörf til að láta ýmis dónaleg og niðrandi orð vaða um allt og alla, fóru að streyma inn á samfélagssíður hennar og setja inn svæsin og særandi komment … sem ekki eru eftir hafandi á sómasamlegum miðli eins og Fréttanetinu. Beindust þau að sambandi þeirra Zacks og þá sérstaklega að honum.

Florence segir að hún hafi auðvitað vitað að frægðinni fylgdi að hún og allt sem hún gerði í einkalífinu yrði að umfjöllunarefni fjölmiðla en finnist samt hlutirnir hafa gengið of langt í þessum efnum – svo langt að í fyrsta skipti hafi hún ákveðið að loka kommentakerfinu á Instagram-síðunni sinni. Um leið birti hún þar eftirfarandi skilaboð.

Eins og sagði hér í upphafi er aðdáendum bent á að skoða glæsilegar innsíðumyndirnar og lesa ítarlegt viðtalið við Florence Pugh á vefsíðu Elle.

Forsíðumynd: Skjáskot af forsíðu Elle

Ljósmynd: DFree / Shutterstock