Með tilkomu alþjóðlegra takmarkana á ferðafrelsi hafa ferðalangar ekki aðeins saknað þess að heimsækja fjarlæga og framandi áfangastaði, heldur saknar fólk líka upplifuninnar sjálfrar – allt frá spennunni í flugtakinu til óviðjafnanlegs útsýnis yfir jörðina þegar í háloftin er komin.

Allnokkur flugfélög í Asíu og Ástralíu hafa því tekið upp á því að bjóða svokölluð “flights to nowhere” — hringferðir sem farið er í eingöngu vegna ferðarinnar sjálfrar, frekar en einhvers tiltekins áfangastaðar, og þá gjarnan boðið upp á skemmtiatriði um borð.

Hjá ástralska flugfélaginu Qantas seldist slíkt flug upp á innan við tíu mínútum. Að sögn forstjórans, Alan Joyce, er þetta líklega mest selda flug í sögu félagsins. „Fólk saknar greinilega ferðalaga og flugupplifuninnar,” sagði Joyce. “Ef eftirspurnin er til staðar munum við örugglega skoða meira af þessu tagi á meðan við bíðum eftir að landamæri opnist.“

Útsýnisflugið, sem telur sjö klukkustundir, mun fara stóra lykkju yfir Queensland og Gullströndina, Nýju Suður-Wales og áströlsku óbyggðirnar. Sérstök skemmtun verður einnig í boði um borð, þar á meðal óvæntur gestgjafi af frægara taginu.

Holskefla af flugum án áfangastaða hefur átt sér stað í Asíu líka, þar sem meirihluti landamæra eru enn lokuð, meðal annars í Singapúr, Japan, Brunei og Tævan. EVA Air í Tævan bauð til að mynda upp á eitt slíkt þann 8. ágúst í A330 Dream þotu sinni, sem fræg er fyrir að vera skreytt Hello Kitty myndum í bak og fyrir. All Nippon Airways í Japan bauð einnig í ágúst upp á útsýnisflug í sem miðaðist við að líkja eftir sumarleyfi í Hawaii. Allt starfsfólk var klætt hawaii-skyrtum og blómakrönsum, boðið var upp á ananassafa og mojito, gefnir voru minjagripir og haldin tombóla um borð.

Þann 19. september verður boðið upp á útsýnisflug frá Taipei-flugvelli og fá þá 120 tævanskir ferðamenn tækifæri til að skoða Jeju-eyju sunnan við Suður-Kóreu. Verður þar haldin spurningakeppni í fluginu ásamt því sem boðið verður upp á kræsingar frá eyjunni sjálfri. 

Fyrir utan það að skemmta ferðaþyrstum viðskiptavinum þjóna þessar útsýnisferðir einnig praktískum tilgangi fyrir flugvélögin, en þær hjálpa við að halda flugvélunum í toppformi. Ef þota af þessu tagi flýgur ekki í 90 daga samfleytt þá eykur það til að mynda umtalsvert allan viðhaldskostnað á lendingarbúnaði hennar.

Umhverfissamtök ósátt

Umhverfishópar í Singapúr hafa lýst yfir áhyggjum af því að þessi flug muni leiða til óþarfa kolefnislosunar og þar með ýta undir áframhaldandi loftslagskreppu. Hópurinn SG Climate Rally sagði til dæmis í yfirlýsingu á vefsíðu sinni 14. september: 

Í fyrsta lagi hvetur þetta til kolefnisfrekra ferðalaga án nokkurrar ástæðu, og í öðru lagi þá er þetta bara tímabundin varaskeifa sem dregur athyglina frá þeim stefnu- og gildismatsbreytingum sem þarf til að draga úr loftslagskreppunni.

Hópurinn sagðist þó hafa samúð með starfsfólki Singapore Airlines (SIA), sem hafa nýverið eins og allt flugfélagsstarfsfólk þurft að þola skert laun og fækkun starfa. Þau hvöttu stjórnendur SIA og stefnumótandi aðila jafnframt til að snúa sér að “sjálfbærari og sanngjarnari úrræðum.”

“Við getum og ættum að gera betur,” sagði hópurinn að lokum.