Sylvain Helaine, 35 ára franskur kennari, var að eigin sögn þvingaður til að byrja að kenna nýjum aldurshóp eftir að foreldri kvartaði yfir því að hann hræddi barn þeirra, en Helaine hefur þakið líkama sinn, andlit og tungu með húðflúrum og hefur auk þess látið gera hvítuna í augum sínum svarta.

Helaine, sem kennir enn börnum frá sex ára aldri, sagði að alla jafna sjái nemendur hans framhjá útliti hans, fyrir utan mögulega smávægilegt áfall þegar þau sjá hann í fyrsta skipti. „Allir nemendur mínir og foreldrar þeirra voru alltaf sátt við mig vegna þess að í grundvallaratriðum þekktu þau mig,“ sagði Helaine. „Það er helst ef fólk sér mig úr fjarlægð sem það gengur út frá einhverju slæmu.“

Að eigin sögn kenndi Helaine í fyrra í leikskóla við Docteur Morere-grunnskólann í Palaiseau, úthverfi Parísar, og gerðist það að foreldrar þriggja ára barns lögðu fram kvörtun til yfirvalda þess efnis að sonur þeirra fengi martraðir eftir að hafa séð hann. Nokkrum mánuðum síðar tilkynntu skólayfirvöld honum að hann myndi ekki kenna leikskólabörnum lengur. „Mér fannst þetta heldur dapurleg ákvörðun hjá þeim,“ segir Helaine.

Talsmaður menntamálayfirvalda á staðnum sagði að samkomulag hefði náðst við Helaine um að flytja hann úr leikskólakennslu, þar sem nemendur undir sex ára aldri gætu orðið skelkaðir við útlit hans.

Þrátt fyrir áföllin ætlar Helaine að halda áfram ferli sínum ótrauður. „Ég er grunnskólakennari,” segir hann. “Ég elska vinnuna mína.“ Hann sagðist vonast til að kenna nemendum sínum að taka í sátt fólk sem fellur ekki inn í staðalmyndir samfélagsins.