Vivian „Millie“ Bailey frá Maryland-fylki í Bandaríkjunum lét langþráðan draum rætast á dögunum með því að fara í fallhlífarstökk, 102ja ára gömul.

Bailey, sem barðist í seinni heimsstyrjöldinni, er til umfjöllunar í þættinum Honor Flight Heroes. Spurðu framleiðendur þáttarins hana hvort hún ætti eitthvað ógert í lífinu sem hana hefði alltaf langað til að gera. Bailey kvaðst hafa verið að hugsa um fallhlífarstökk lengi, allt frá því að hún sá George H.W. Bush fyrrverandi Bandaríkjaforseta fara í slíkt stökk 90 ára gamlan.

„Mér fannst hvetjandi að hann hefði gert það,“ sagði Bailey við WJLA-TV sjónvarpsstöðina. „Staðreyndin að manneskja á þessum aldri gæti tekið stökkið.“

Samkvæmt Bailey var fallhlífastökkið þó einungis draumur áður en til þáttarins kom, þar sem hún átti ekki fyrir því. Framleiðendur þáttarins borguðu því reikninginn og fengu í staðinn myndefni fyrir þáttinn.

„Það væri ekki hægt að biðja um meira spennandi endi á þættinum,“ sagði aðalframleiðandi þáttarins, Eric J. Roberts.“ „Millie myndi vera fyrsta 102ja ára manneskjan á Mars, ef væri hægt að koma því í kring.“