Bandaríski grínistinn Fred Willard lést í gærmorgun af náttúrlegum orsökum og var andlát hans friðsælt eins og sagði í yfirlýsingu sem dóttir hans, Hope Mulbarger, sendi frá sér. Þar með er genginn einn ástsælasti gamanleikari Bandaríkjanna.

Fred Willard hóf ferill sinn sem uppistandsgrínisti í Los Angeles á sjötta áratug síðustu aldar og landaði sínu fyrsta kvikmyndahlutverki 1967. Á næstu tíu árum tók hann að sér allt sem bauðst í bæði kvikmyndum og sjónvarpsþáttum með fram uppistandinu.

Það var svo árið 1977 sem hann sló í gegn í sjónvarps- og spjallþáttunum Fernwood Tonight og varð heimilisvinur bandarískra sjónvarpsáhorfenda. Upp frá því varð hann tíður gestur í mörgum helstu grín- og spjallþáttum Bandaríkjanna. Aðeins eru nokkrir dagar síðan hann kom síðast fram í þætti Jimmy Kimmels.

Hróður Freds byrjaði að berast út fyrir landsteina heimalandsins árið 1984 þegar hann lék í myndinni This Is Spinal Tap eftir Rob Reiner. Þar hitti hann í fyrsta sinn leikstjórann Christopher Guest sem seinna átti eftir að ráða hann til leiks í fimm mynda sinna, Waiting for Guffman, Best in Show, A Mighty Wind, For Your Consideration og Mascosts, en sú síðastnefnda var gerð 2016.

Þess utan lék Fred í þekktum myndum eins og Silver Streak, Roxanne, High Strung, Harold & Kumar Go to White Castle, Anchorman: The Legend of Ron Burgundy og fleirum en var þó alltaf uppteknastur alla tíð af leik í mörgum af þekktustu sjónvarpsþáttum Bandaríkjanna auk sviðsleiks og uppistands.

Mynd: Kathy Hutchins / Shutterstock.com