Krókódíll
Ef þú sérð krókódíl í þessari stöðu skaltu ekki fara nær. Mynd: Vish K/Unsplash

Margar erlendar fréttasíður segja nú frá hinni 58 ára gömlu Cynthiu Covert sem lét lífið síðastliðinn föstudag á Kiawah-eyju í Suður-Karólínuríki Bandaríkjanna þegar krókódíll sem hafðist við í tjörn nálægt heimili vina hennar drekkti henni.

Líklegt má telja að krókódíllinn hefði einnig gætt sér á Cynthiu ef lögreglumaður sem kallaður var til hefði ekki skotið hann til að ná líki hennar í land. Dánar-orsökin var skráð drukknun. Þetta er í þriðja sinn frá 2016 sem krókódíll verður manneskju að bana í ríkinu.

Var að snyrta neglur þegar hún sá krókódílinn

Cynthia, sem var snyrtifræðingur að mennt, hafði fyrr um daginn komið í heimsókn til vina sinna á Kiawah-eyju, m.a. til að snyrta á þeim neglurnar. Hún tók þá eftir að í nærliggjandi tjörn maraði krókódíll í hálfu kafi. Að naglasnyrtingunni lokinni fór hún út á verönd hússins og byrjaði að taka myndir af krókódílnum á meðan húsráðendur sinntu öðru. Skömmu síðar uppgötva þeir hins vegar að Cynthia er horfin af veröndinni og þegar að er gáð er hún komin hættulega nálægt tjörninni.

„Ekki fara svona nálægt“ kölluðu þeir til hennar en fengu það svar til baka að hún vildi ná nærmyndum af dýrinu. Hélt hún svo áfram og fór alveg niður að bakkanum með myndavélina á lofti. „Komdu þér frá tjörninni“ hrópuðu vinirnir aftur til hennar í vaxandi örvæntingu, „þessi krókódíll náði dádýri í síðustu viku á nákvæmlega þeim stað sem þú ert á núna“.

„Ég lít ekki út fyrir að vera dádýr“, kallaði Cynthia þá til baka og hafði vart sleppt orðinu þegar krókódíllinn stökk upp úr tjörninni, náði taki á fæti hennar og dró hana út í vatnið. Vinirnir hlupu í ofboði niður á bakkann á meðan Cynthia barðist við að losna úr skolti dýrsins og höfðu náð að grípa með sér reipi sem þeir köstuðu nú til hennar.

„Ég geri þetta sennilega ekki aftur“

Cynthia náði taki á reipinu, leit til vina sinna á bakkanum og sagði, að þeirra sögn alveg sallaróleg: „Ég geri þetta sennilega ekki aftur“. Á því augnabliki tók krókódíllinn svokallaðan dauðasnúning (death roll) en það gera krókódílar til að drekkja bráðinni sem þeir hafa náð tökum á. Bæði Cynthia og hann hurfu svo undir yfirborðið.

Nokkrum mínútum síðar mætti lögreglan á svæðið en þurfti að bíða í tíu mínútur áður en sást til krókódílsins á ný sem var þá kominn úr kafi við hinn enda tjarnarinnar. Hann var með lík Cynthiu og eina leiðin til að ná því af honum án þess að setja sig í stórhættu var að skjóta hann.

Þykir mörgu heimafólki það í sjálfu sér einnig miður því þessi krókódíll, sem vó hátt í 300 kíló og var rúmlega þrír metrar á lengd, var vel þekktur á þessum slóðum eftir að hafa dvalist í tjörninni í a.m.k. 20 ár.

Eins og áður sagði er þetta er í þriðja sinn frá árinu 2016 sem krókódíll verður manneskju að bana í Suður-Karólínuríki en fyrir þann tíma eru engin slík dauðsföll skráð í ríkinu.

Forsíðumynd: vaun0815/Unsplash