Umönnun Alzheimers-sjúklinga fer víðast hvar fram með svipuðu móti, annað hvort með því að fólk dvelur á sérstökum Alzheimers-deildum innan stofnana eða þá að viðkomandi fær þjónustu aðstoðarfólks heim. í Landais-þorpinu í suðvestur-Frakklandi er hins vegar allt annað uppi á teningnum.

Landais er samfélag algerlega tileinkað þörfum þeirra 105 sjúklinga sem hér búa, sem öll þjást af mismunandi langt komnum Alzheimers. Þorpið varð til í júní síðastliðnum og er byggt í anda De Hogeweyk, þorps sem byggt var í Hollandi fyrir elliglapasjúklinga árið 2009. Er þetta fyrsta verkefni Frakklands af þessu tagi.

Fyrir utan hjúkrunaraðstöðu má finna í Landais matvöruverslun, hárgreiðslustofu, matstofu, bókasafn og tónlistarherbergi. Íbúar fá eins mikið frelsi og sjúkdómsstig hvers og eins leyfir, og mikið er um viðburði og skemmtun.

Íbúar eru einnig hvattir til að taka þátt í reglulegum athöfnum svo sem innkaupaferðum, eldamennsku og hárgreiðslutímum, þar sem kunnugleg hversdagsrútína er talin stemma stigu við verstu einkennum sjúkdómsins þegar hann er lengra kominn.

„Þetta er eins og að vera heima hjá sér,“ sagði hin 82ja ára gamla Madeleine Elissalde, einn fyrsti íbúi svæðisins. „Það er passað vel upp á okkur.“

Um það bil 6.7 milljón evrur (tæpan 1.1 milljarð króna) kostar að reka verkefnið árlega. Íbúar og fjölskyldur þeirra borga samtals 24.000 evrur (4 milljónir króna), en meira en helmingur fjármagns til rekstrarins er niðurgreiddur af ríkisstjórninni.

Þó það kunni að virðast dýrt, segja vísindamenn við frönsku lýðheilsustofnunina (National Institute of Health and Medical Research), þá er það fyllilega þess virði vegna þess hve mikilvæga innsýn svona verkefni veitir inn í bestu mögulegu leiðir til að meðhöndla framþróun elliglapa og Alzheimers á hverju stigi sjúkdómanna fyrir sig.

Nathalie Bonnet, sálfræðingur í Landais, sagði um íbúana, „Þau eru búin að hreiðra vel um sig síðan þau komu í júní, og hafa náð að upplifa aftur frið og frelsi. Þau eru komin með drifkraftinn til að standa í daglegu amstri. Auk þess er alltaf einhver nálægt til þess að meðhöndla þunglyndis- eða kvíðaköst, þannig að þau róast hraðar.“

Sjá skoðunarferð um þorpið hér fyrir neðan: