Leikkonan Emma Roberts sýnir óléttukúluna á forsíðu nýjasta heftis tímaritsins Cosmopolitan. Forsíðan er söguleg fyrir þær sakir að Roberts er fyrsta ólétta konan til að prýða hana í sögu tímaritsins.

Roberts á von á barni með kærasta sínum, leikaranum Garrett Hedlund. Er þetta þeirra fyrsta barn, en í viðtali við Cosmopolitan opnar Roberts sig um baráttu sína við sjúkdóminn endómetríósu. Hún var greind með sjúkdóminn áður en hún varð tvítug og var þá búin að þjást af einkennum hans um árabil.

„Á þeim tímapunkti var sjúkdómurinn búinn að hafa áhrif á frjóseminu. Mér var sagt að ég ætti hugsanlega að láta frysta egg eða skoða aðra valkosti,“ segir hún. Roberts ákvað að láta frysta úr sér egg og byrjaði að opna sig um sjúkdóminn við aðrar konur.

„Ég var mjög hissa þegar ég heyrði um áhrifin á frjósemina. Mér fannst þetta svo ákveðið og á skringilegan hátt fannst mér ég hafa gert eitthvað vitlaust. Ég var svo þakklát þegar ég heyrði að ég væri ekki ein í þessu. Ég hafði ekki gert neitt af mér eftir allt saman.“

Roberts segir að hún hafi orðið ólétt um leið og hún hætti að velta frjósemisvandamálunum fyrir sér. Hún hefur unnið við leiklist síðan hún var barn og hefur áhyggjur af því að ala barn upp í Hollywood. Roberts er einnig frænka stórleikkonunnar Juliu Roberts.

„Ég dýfði mér í þennan heim en hann gerði það ekki,“ segir hún og vísar í ófæddan son sinn. „Ég man þegar ég var barn og fór eitthvað með frænku minni og fólk elti hana eins og brjálæðingar. Það var óeðlilegt. Í dag hugsa ég bara: Ókei, ég skil. Taktu bara myndina. En þeir láta mann ekki í friði.“

Roberts segir meðgönguna hafa einkennst af hæðum og lægðum en að hún sé hraust og það sé fyrri öllu.

„Það gilda ekki eðlileg lögmál um mat og svefn þegar maður er óléttur. En ég er hraust og ég er þakklát fyrir það. Það hefur verið ótrúleg lífsreynsla að sjá líkama minn breytast að utan og innan. Óvænt og fallegt.“

Talið er að 5 til 10 prósent kvenna þjáist af endómetríósu. Á vef samtaka um endómetríósó segir:

„Sjúkdómurinn lýsir sér á þann veg að endómetríósufrumur setjast á yfirborðsþekju á hinum ýmsu líffærum, bregðast við mánaðarlegum hormónabreytingum líkamans og valda þar bólgum. Þannig getur einstaklingur með endómetríósu verið með innvortis blæðingar í hverjum mánuði á þeim stöðum sem frumurnar eru. Þar sem þetta blóð kemst ekki í burtu geta myndast blöðrur á þessum stöðum. Einnig geta myndast samgróningar milli líffæra og innan kviðarholsins eða annarsstaðar í líkamanum. Allt getur þetta geta valdið miklum sársauka.“