Slökkvilið Los Angeles-borgar varð í síðastliðinni viku það fyrsta í Bandaríkjunum til að bæta við vélmenni í mannskapinn.

Thermite Robotic Systems 3 slökkviliðsvélmennið – eða RS3 eins og það er yfirleitt kallað – getur varpað frá sér næstum 10 þúsund lítrum af vatni á mínútu. Því er stjórnað með fjarstýringu, og einnig er það útbúið hágæða myndavélabúnaði svo hægt sé að stýra því auðveldlega í gegnum erfiðar aðstæður.

Þó vélmennið sé á stærð við Smart-bifreið þá er það samt sem áður nógu smátt til að passa gegnum tvöfaldar dyr, og nógu öflugt til að brjóta sér leið gegnum veggi ef þörf krefur.

„Við getum barist við eldinn innan frá,“ sagði Ralph Terrazas slökkviliðsstjóri í samtali við Los Angeles Times og bætti því við að vélmennið breytti öllu fyrir teymið hans.

RS3 var opinberað fyrir almenningi á blaðamannafundi snemma í síðustu viku, en á undan því hafði það þó þegar verið notað í risavöxnum bruna sem átti sér stað í miðbæ Los Angeles. Var sá svo stór að slökkviliðsmenn þurftu að hörfa úr byggingunum tveimur sem kveiknað var í og reyna að notast við brunaslöngurnar að utan frá, en RS3 gat hins vegar komist inn fyrir og barist við eldinn þar.

Slökkviliðið í Los Angeles gat keypt RS3 þökk sé stórri fjárgjöf sem hlaust í fjáröflunarframtaki hjá þeim. Vélmennið mun eiga heimili sitt í Firehouse 3, sem ku vera annasamasta slökkviliðsstöð borgarinnar.