Mörgum hefur reynst erfitt að heimsækja nána vini og ættingja á meðan á heimsfaraldrinum stendur. Hinn 10 ára gamli Romeo Cox var hins vegar ekki að láta neitt fara að stoppa sig þegar hann lagði land undir fót fyrr á árinu og gekk 2.730 kílómetra — frá Sikiley til Bretlands — til þess að fá knús frá ömmu sinni, Rosemary.

„Eg var ekki búinn að sjá ömmu í eitt og hálft ár, þannig að ég var búinn að skipuleggja leyniferð til að fara og hitta hana,“ sagði Cox í viðtali við Times of London. Drengurinn þurfti að leggja sig töluvert fram við að sannfæra foreldrana, en það tókst þó á endanum. „Ég spurði þau og þau sögðu nei meira en 50 sinnum. Svo samþykktu þau loksins, að því gefnu að allt væri öruggt gagnvart Covid.“

Að leyfinu fengnu byrjaði Cox að gera áformin að veruleika. „Ég teiknaði kort. Ég ætlaði að labba og fara á báta og gera allt eins náttúrulega og hægt er til að hlífa plánetunni. Og ég tók pabba með mér, af því það er þægilegra að hafa fullorðinn með í för.“

Faðir Romeo er enginn aukvisi: Hinn 46 ára gamli Phil Cox er þaulreyndur blaðamaður og kvikmyndagerðarmaður sem hefur reynslu af fréttaflutningi á vígsvæðum og býr yfir ómetanlegri þekkingu um hvernig hægt er að ferðast farsællega við alls kyns aðstæður.

Feðgarnir hófu för sína þann 20. júní síðastliðinn með því að ganga þvert yfir Ítalíu, Sviss og Frakkland, og eyddu þeir ófáum nóttum undir stjörnubjörtum himni. Þeir týndust í eitt eða tvö skipti, þurftu að bægja frá villtum hundum, fengu sár á fæturna, vinguðust við villtan asna og sinntu sjálfboðaliðastarfi í flóttamannabúðum í Norður-Frakklandi.

Sama hve óvenjulegir eða erfiðir hlutir urðu á vegi þeirra héldu þeir alltaf ótrauðir áfram, enda hafði Romeo aðra mjög brennandi ástæðu fyrir ferðalaginu — hann vildi safna fé til aðstoðar flóttamannabörnum.

Þetta markmið var tilkomið vegna þess að þegar Romeo hafði fyrst flutt með fjölskyldu sinni til Palermo á Sikiley hafi hann verið tekinn undir verndarvæng nokkurra jafnaldra. Þar á meðal var hans besti vinur, Randolph, sem var flóttamaður frá Ghana og hafði þurft að ganga ómældar vegalengdir með fjölskyldu sinni, frá Ghana til Ítalíu.

„Hann gekk ennþá lengra en ég gekk á þessari ferð, en án matar og vatns, og í stöðugum ótta um líf sitt,“ sagði Romeo í samtali við Metro News.

„Hann hjálpaði mér þegar ég kom til Sikileyjar, þannig að ég vildi hjálpa honum á móti, og öðrum sem eiga undir högg að sækja.“

Romeo er nú þegar búinn að afla 2.5 milljóna króna í frjálsum framlögum fyrir samtökin Refugee Education Across Conflicts.

Þann 21. september mættu feðgarnir á Trafalgartorg í London, þar sem þeir þurftu að eyða tveimur vikum í einangrun áður en þeir fengu að ráðast í síðasta hluta ferðarinnar heim til ömmu. „Ég er þreyttur núna, eins og hundrað ára gamall maður,“ sagði Romeo, „en þetta er búið að vera svo gaman.“

Þegar hús ömmu hans var loks í augsýn tók Romeo á rás, og enduðu þau hlaup með ömmuknúsinu langþráða. „Ég trúði ekki þessari ótrúlegu ferð fyrst,“ sagði Rosemary, en sagðist þó fyrst og fremst vera uppfull ástar og þakklætis.

„Börn geta veitt okkur innblástur og lyft okkur upp,“ sagði hún. „Fyrir hönd allra amma í heiminum þá vil ég þakka Romeo — og auðvitað knúsa hann og kyssa fullt.“

Sjáið myndskeiðið af fagnaðarfundunum hér.