George Floyd.

Tveimur krufningarskýrslum, annars vegar á vegum Minnesota-ríkis og hins vegar á vegum fjölskyldu Georges Floyd, ber ekki saman um hvað það var að lokum sem orsakaði dauða hans.

Í krufningarskýrslu læknanna sem fjölskyldan réði er dánar­orsökin sögð köfnun. Þess utan hefði mikil þrýstingur á bak og fætur einnig áhrif á blóðflæði líkama hans og að afleið­ingin hefði verið súrefnisskortur til heilans sem dró hann til dauða.

Í skýrslu opinbera teymisins segir hins vegar að George hafi dáið vegna undirliggjandi hjartaveikleika og veikleika í æðum við hjartað sem hafi valdið því að hjarta hans stöðvaðist.

Í einkaskýrslunni er ekkert minnst á undirliggjandi hjartaveikleika og í þeirri opinberu er ekkert minnst á köfnun. Sú opinbera inniheldur einnig upplýsingar um að í líkama Georges hafi fundist amfetamín og fentanyl, en hvorki er tekið fram í hve miklum mæli efnin hefðu fundist né að þau hefðu átt þátt í dauða hans.

Hvort, og þá hve miklu máli þetta misræmi skiptir eða hvort þessar mismunandi niðurstöður kalli á frekari rannsókn á dánarorsökinni hefur ekki komið í ljós. Er nú beðið viðbragða ríkisins, en báðar krufningarskýrslurnar voru afhentar á mánudag.

Dó á staðnum

Hitt er annað mál að krufningarskýrslunum ber saman um að frumorsök dauða George hafi verið af mannavöldum og að hann hefði ekki dáið ef lögreglumennirnir þrír hefðu ekki beitt þeim þrýstingi á líkama hans sem þeir gerðu.

Enn fremur ber skýrslunum saman um að þótt þrýstingurinn á háls hans hafi skipt mestu máli hafi hinir tveir lögreglumennirnir, sem krupu með hnén annars vegar á baki hans og hins vegar á fótum, einnig átt þátt í dauða hans með þrýstingi sem skerti blóðflæðið.

Einnig kemur fram í báðum skýrslunum að George hafi dáið áður en lögreglumennirnir þrír afléttu þrýstingnum á hann, en það gerðu þeir ekki fyrr en sjúkrabíll kom á staðinn.

Óskiljanlegt að hinir þrír gangi enn lausir

Lögfræðingar fjölskyldu George, Ben Crump og Antonio Romanucci, segja að það skipti engu máli hvort George hafi látist vegna köfnunar eða vegna þess að hjarta hans hætti að slá því í báðum tilfellum hafi orsökin verið sá þrýstingur sem lögreglumennirnir þrír beittu á líkama hans. „George gat ekki andað og það er ástæðan fyrir því að hann dó,“ sagði Ben Crupa.

Sögðu þeir í viðtölum í gær að það væri algjörlega óskiljanlegt hvers vegna ekki væri búið að handtaka hina þrjá lögreglumennina til viðbótar við þann sem þrýsti á háls Georges, þ.e. þá tvo sem þrýstu á bak hans og fætur og þann sem stóð hjá.

„Þeir eru allir ábyrgir fyrir dauða Georges og hefðu allir getað afstýrt því sem gerðist“, sagði Antonio Romanucci. Hann og fjölskyldan vill enn fremur að sá sem þrýsti á háls George, Derek Chauvin, verði ákærður fyrir fyrsta stigs morð.