Leikarinn George Segal lést þriðjudaginn 23. mars, 87 ára að aldri. Ekkja hans, Sonia Segal, staðfestir þetta í yfirlýsingu til tímaritsins Us Weekly.

Segal sló rækilega í gegn í kvikmyndinni Who’s Afraid of Virginia Woolf? árið 1966 og nældi sér í tilnefningar til bæði Óskars- og Golden Globe-verðlaunanna fyrir frammistöðu sína í myndinni. Árið 1973 lék hann í kvikmyndinni A Touch of Class og hlaut þá Golden Globe-styttuna eftirsóttu. Í sjónvarpi var hann hvað þekktastur fyrir að túlka Jack Gallo í Just Shoot Me og Albert Solomon í The Goldbergs.

Segal gekkst undir kransæðahjáveituaðgerð og lést í kjölfarið vegna fylgikvilla eftir aðgerðina.

Hann skilur eftir sig fyrrnefnda ekkju og tvær uppkomnar dætur sem hann átti með fyrstu eiginkonu sinni, Marion Segal Freed.