Taika Waititi
Taika Waititi á Comic Con-kvikmyndaráðstefnunni í fyrra þar sem hann kynnti nýju Thor-myndina, Love and Thunder. Mynd: Wikimedia.

Enda þótt fréttin um að Taika Waititi muni leikstýra næstu Star Wars-mynd hafi ekki komið neinum sem fylgist með orðróminum í Hollywood á óvart er óhætt að segja að hún hafi létt lund milljóna Star Wars-unnenda þar sem Taika var einmitt sá leikstjóri og handritshöfundur sem langflestir þeirra vildu að tæki við taumunum úr höndum leikstjóra siðustu tveggja mynda, J.J. Abrahm.

Taika Waititi hefur á undanförnum árum getið sér afar gott orð í kvikmyndaheiminum og hlaut mikið lof og fjölmörg verðlaun fyrir síðustu mynd sína, Jojo Rabbit, þ. á m. bæði Óskars- og BAFTA-verðlaunin fyrir handritið auk þess sem myndin var tilnefnd til Óskarsins sem besta mynd síðasta árs.

Taika gerði einnig myndina Thor: Ragnarok (1917) sem margir telja skemmtilegustu Marvel-myndina til þessa og örugglega þá fyndnustu og þar á undan myndina Hunt for the Wilderpeople sem átti reyndar einna stærstan þátt í stóru fyrirtækin í Hollywood tóku að banka á dyr hans. Taika hefur einnig komið við sögu Star Wars-þáttanna The Mandalorian, talaði í þeim fyrir hausaveiðaravélmennið IG-11 í þremur þáttum og leikstýrði áttunda þættinum.

Nóg að gera

Að undanförnu hefur Taika unnið að leikstjórn og handritsgerð framhaldsmyndarinnar um þrumuguðinn Þór, Thor: Love and Thunder, sem til stendur að frumsýna í febrúar 2022. Þess utan hefur hann sinnt lokafrágangi sinnar næstu myndar, Next Goal Wins, en hún segir frá knattspyrnulandsliði Samóa-eyja sem varð frægt af endemum þegar það tapaði 31-0 fyrir Ástralíu í undankeppni heimsmeistaramótsins 2002. Sjá má sum mörkin á You Tube.

Auk þess er Taika með í bígerð fyrsta þáttinn í sjónvarpsseríunni Time Bandits sem eins og heitið bendir til er byggð á samnefndri bíómynd Terrys Gilliam frá árinu 1981 … og eins og þetta sé ekki komið gott þá vinnur hann líka ásamt vini sínum, Jemaine Clement, að handriti myndarinnar We’re Wolves sem sækir efnið í stuttmynd þeirra félaga, What We Do in the Shadows, frá árinu 2005.

Það verður því örugglega nóg að gera hjá Taika Waititi næstu daga og ár.

Meira um Star Wars-myndina

Nýja Star Wars-myndin hefur eðlilega ekki enn hlotið neitt sérheiti en áætlað er að hún verði ein af jólamyndunum 2024. Talað hefur verið um að hún verði fyrsta myndin í nýjum þríleik sem gerist í geimnum, auðvitað, en samt í allt annarri veröld en þeirri sem fólk þekkir úr fyrri myndum. Hvað átt er við með því má hver og einn giska á fyrir sig en um eitt eru menn sammála og það er að þessi nýja mynd mun innihalda mun meiri húmor en síðustu Star Wars-myndir enda er Taika með grínið í blóðinu. Samstarfskona hans við handritsgerðina verður Krysty Wilson-Cairns sem skifaði handritið að 1917 ásamt Sam Mendez og handrit hinnar væntanlegu Last Night in Soho ásamt Edgar Wright.

Þess má að lokum geta að þeir sem hafa ekki séð Jojo Rabbit í bíó eru komnir á síðasta séns með það, en hún verður sýnd kl. 19 í kvöld og annað kvöld í einum af minni sölum Smárabíós og er sætaframboð takmarkað vegna tveggja metra reglunnar.