Nú þegar samkomubanni er smám saman að ljúka og flest búin að mastera súrdeigsbrauð og kökugerð heima hjá sér er fólk orðið þyrst í félagsskap annarra og mat sem er búið til fyrir það af öðrum. Veitingastaðir á landinu eru að opna aftur einn af öðrum og langflestir opna í einhverri mynd í þessari viku. Eins og margoft hefur verið tönglast á eru þetta fordæmalausir tímar og það eru þeir svo sannarlega í veitingageiranum, ekki bara hér á landi heldur bókstaflega um allan heim.

Þessir tímar eru ekki einungis fordæmalausir heldur líka krefjandi, mjög krefjandi meira að segja fyrir veitingahús. Þó kaffihús og veitingastaðir séu smám saman að opna aftur þá er það ekki algilt. Staðir sem eru skilgreindir sem „krá“ á sínu veitingaleyfi fá ekki að opna fyrr en í fyrsta lagi í lok júní og hafa þá verið lokaðir á fjórða mánuð. Margir af þessum stöðum eru í raun ekki með mikið öðruvísi starfsemi en kaffihús og veitingastaðir sem hafa fullt leyfi til að afgreiða áfenga drykki til fólks á útisvæði þó það sé ekki að borða, Þarna hefur myndast gat sem þarf að laga til að öll sitji við sama borð. Staðir sem hafa kráarskilgreiningu ættu í raun að geta verið opnir á sama tíma og aðrir með sömu reglum. Fæstir laga hegðun sína eftir því hver skilgreiningin á staðnum er og skutla í sig skotum og detta í skrúfusleik á útiborðum á American bar frekar en á Apótekinu.

Þó staðir séu að opna einn af öðrum eru enn í gangi strangar reglur fyrir gesti og starfsfólk. Það mega til dæmis ekki vera fleiri en 50 manns í sama rými og það þurfa að vera tveir metrar á milli fólks. Þetta þýðir í raun að veitinga- og kaffihús eru ekki að vinna á nema hálfum afköstum og þar af leiðandi þarf ekki nema helming af því starfsfólki sem áður þurfti. Þetta er ískaldur veruleikinn sem við lifum við.

Rekstrarumhverfi veitingahúsa er sumsé mjög brothætt, það var meira að segja brothætt fyrir Covid19, og við þurfum að hafa það í huga þegar við snúum frá heimabökuðu súrdeigsbrauðunum og sushigerðinni. Það eru til allskonar veitingastaðir, misstórir og með mismundandi skilgreiningar eins og skýrt ætti að vera orðið. Stærri fyrirtæki og keðjur eiga auðveldara með að ná aftur vopnum sínum en lítil fjölskyldufyrirtæki og ef við pössum ekki upp á að versla við þau fyrirtæki sem við viljum sjá lifa, er alls óvíst að þau geri það. Lifi.

Fólk er hvatt til þess að ferðast innanlands í sumar og í raun ekkert annað hægt, enda engar flugferðir í fyrirsjánlegri framtíð. Látum það ekki vera kvöð. Vinnum með það því gæði og fjölbreytni veitingahúsa hér á landi eru alveg á pari við það besta sem gerist annars staðar í heiminum. Kokkarnir okkar vinna til verðlauna í hverri keppninni á fætur annarri og það er í raun ótrúlegt hvar við stöndum, hvort sem miðað er við hina heppilegu höfðatölu eða ekki. Þvoið ykkur vel um hendur og sprittið og farið svo rakleiðis út að borða eins oft og þið mögulega hafið ráð á, því það skapar ekki bara störf, heldur líka menningu og vellíðan. Fyrir utan að sleppa við uppvaskið heima.