Skoðanakönnun sem gerð var í Bretlandi nýverið hefur leitt í ljós að margir þarlendis hafa búið til nýjar og heilbrigðar hversdagsrútínur á meðan COVID-19 ástandið hefur staðið yfir. Rannsóknin, sem náði til 2000 einstaklinga, sýndi að meira en þriðjungur þeirra hafa nælt sér í góða ávana á meðan þau voru lokuð heima fyrir.

Sjö af hverjum tíu sögðu að nýju venjurnar hefðu vakið með þeim hamingju og öryggistilfinningu, og 65 prósent aðspurðra töldu þær hafa bætt daglegt líf. 64 prósent segjast hreyfa sig meira en áður, og tveir þriðju þeirra segja heilsu sína og vellíðan hafa batnað. 65 prósent sögðust einnig stunda hollara og fjölbreyttara mataræði.

Einnig kom í ljós að margir hafa öðlast nýja ást á því að vera utandyra — 29 prósent sögðust fagna því að geta verið úti í náttúrunni. Matseld og bakstur gerð frá grunni urðu líka vinsælli, en rúmlega fjórðungur aðspurðra höfðu komið slíku upp í vana.

31 prósent höfðu vanið sig á að ganga betur um og taka til heima hjá sér reglulega, og 18 prósent höfðu lagt stund á hugleiðslu- og núvitundartækni til þess að sefa hugann á þessum miklu óvissutímum.

Aðalástæðurnar fyrir öllum nýju venjunum og rútínunum voru að sögn þátttakenda mikil heimavera annars vegar, og hins vegar þörfin fyrir stjórn- og skipulagstilfinningu. Einnig var fólk líka bara skyndilega með svo mikinn frítíma á sínum höndum.