Að gera góðverk og hjálpa öðrum getur verið gott fyrir manns eigin heilsu og líðan. Þetta eru frekar alþekkt sannindi, þó vissulega lifum við ekki öll eftir þeim og sumir séu ef til vill ósammála. Nú hafa hins vegar vísindin lagt sitt á vogarskálarnar enn á ný: rannsókn á vegum sálfræðisamtaka Bandaríkjanna, (American Psychological Association), segir að þessir hlutir hafi marktæk áhrif.

„Félagslega ábyrg hegðun — fórnfýsi, samvinna, traust og samkennd — eru allt nauðsynlegir þættir í samlyndu og virku samfélagi,“ sagði sá sem leiddi rannsóknina, Bryant P.H. Hui, doktor við Hong Kong-háskóla. „[Slík hegðun] er hluti af sameiginlegri menningu mannkynsins, og rannsókn okkar sýnir að hún hefur líka áhrif á andlega og líkamlega heilsu.“

Fyrri rannsóknir um efnið þykja hafa bent til þess að fólk sem er duglegri við að stunda félagslega ábyrga hegðun sé almennt hamingjusamara en fólk sem skeytir ekki um að hjálpa öðrum. Þó hafa ekki allar rannsóknir náð að sanna tengslin þar á milli, og er styrkur þeirra afar misjafn eftir rannsóknum.

Hui og samstarfsfólk hans lögðust því í safngreiningu á yfir 200 sjálfstæðum rannsóknum um efnið, til þess að reyna að komast að orsök þessa breytileika. Þegar upp var staðið komust þau að því að tengslin á milli voru ekki gríðarlega mikil, en þó nægileg til að vera vel marktæk.

„Meira en fjórðungur Bandaríkjamanna stundar sjálfboðastarf,“ sagði Hui. „Tengslastyrkurinn sem við sáum getur haft töluverð áhrif á samfélagsmyndina í heild sinni þegar margir eru að stunda þessa hegðun.“

Hui og samstarfsfólk hans komust einnig að því að handahófskennd góðverk, svo sem að hjálpa nágranna með innkaupapokana eða hjálpa gamalli konu yfir götu, höfðu mun sterkari áhrif á vellíðan og heilsu gerandans heldur en formfastari góðverk eins og sjálfboðastarf eða gjafir til góðgerðarsamtaka. Samkvæmt Hui gæti þetta verið vegna þess að tilfallandi og óformleg hjálpsemi sé líklegri til þess að úr verði ný félagstengsl. Óformleg gjafmildi væri þá einnig fjölbreyttari og minna líkleg til að verða leiðigjörn.

Einnig fundust sterk tengsl á milli góðverka og vissrar tegundar af vellíðan sem kallast virk (eudaemonic) vellíðan. Hún hefur að gera með þætti eins og að finna merkingu í lífinu og ná að framfylgja markmiðum sínum, á meðan hin aðaltegundin, tilfinningavellíðan (hedonic wellbeing), snýst um upplifun á hamingju, sælu og jákvæðum tilfinningum. Voru tengslin hjá síðarnefndu tegundinni alls ekki jafn sterk.

Framtíðarrannsóknir gætu reynt að skoða hvort félagslega ábyrg hegðun er alltaf af hinu góða, eða hvort til er eitthvað „kjörið stig“, umfram hvert góðmennska og gjafmildi enda með að koma niður á gefandanum, segir Hui.