Það kann að hljóma skringilega, en aldrei hefur áður verið til safn helgað hinu risavaxna japanska eðluskrímsli Godzilla. Nýja safnið, sem kallast á ensku “Godzilla Interception Operation Awaji – National Awaji Institute of Godzilla Disaster” opnaði dyr sínar að hluta til nýverið á Awaji-eyju í suðvestur-Japan. Ekki hefur allt safnið verið opnað enn, og má því segja að í núverandi mynd sé það nokkurs konar forskot á sæluna. 

Aðdáendur eðlunnar stóru geta séð ýmis fyrirbæri úr veröld hennar, borðað mat með Godzilla þema, skoðað aragrúa leikmuna úr bíómyndunum og náð sér í allskyns Godzilla-varning. Einnig verður hægt, þegar garðurinn verður fullkláraður, að ferðast með ziplínu rakleiðis ofan í opið ginið á skepnunni í fullri stærð:

Godzilla á sér langa og glæsta sögu á hvíta tjaldinu. Þó svo það hafi ekki verið fyrsta risaskrímsli kvikmyndanna (þann heiður hlýtur apinn King Kong, hvers fyrsta mynd kom út 1933, 21 ári fyrir frumraun Godzilla) getur það þó státað af því að eiga langlífustu kvikmyndaseríu sögunnar. Alls hafa 36 myndir komið út um kvikindið yfir 66 ára tímabil.

Safnið verður opið í núverandi mynd fram til 30. ágúst, og mun svo loka aftur meðan verið er að reka smiðshöggið á ziplínuferðina, sem verður hornsteinn allrar reynslunnar. Ekki er vitað að svo búnu hvenær safnið opnar í fullkláraðri mynd.