Það virðist hafa farið afar vel á með þeim Dwayne Johnson og Emily Blunt við gerð myndarinnar Jungle Cruise, svo vel reyndar að þau hafa þegar ákveðið að leika saman í annarri mynd, Ball and Chain, þrátt fyrir að Jungle Cruise hafi ekki einu sinni verið frumsýnd og verði ekki frumsýnd fyrr en í júlí 2021. Þykir þessi snemmbæra ákvörðun reyndar gefa vísbendingu um að Jungle Cruise hafi heppnast vel því ef því væri öfugt farið þá færu þau varla að leggja í aðra mynd, ekki satt?

Þess bera að geta að Jungle Cruise er ein þeirra mynda sem áttu að vera á dagskrá kvikmyndahúsanna í sumar, en kórónafaraldurinn breytti því.

Byggð á skemmtigarðaþema

Jungle Cruise
Frá einum af þeim skemmtigörðum Disney sem bjóða upp á Jungle Cruise-ævintýraferðina.

Jungle Cruise sækir innblásturinn í samnefnt ævintýraþema í Disney-skemmtigörðunum þar sem fólk fer um borð í lítinn fljótabát og siglir svo í gegnum frumskóg þar sem alls konar dýr, stór sem smá, hafast við. Mikill húmor er í ferðinni en einnig er reynt að herma dálítið eftir upplifun þeirra fyrstu sem sigldu upp og niður árnar í Afríku, Suður-Ameríku og Asíu í árdaga landkönnuða.

Leitað að lækningu

Sagan í myndinni, sem er eftir þá Glenn Ficarra og John Requa (Bad Santa, Cats & Dogs, Focus, Smallfoot), gerist í upphafi 20. aldar og segir frá fljótabáts-kafteininum Frank Wolff sem samþykkir að ferja vísindakonuna Lily Houghton niður ónefnt Amazon-frumskógafljót í leit að „lífsins tré“ en það mikilfenglega tré er sagt framleiða undrakvoðu sem læknar allt. Frank hefur samt jafnlitla trú á að tréð sé raunverulegt og Lily er handviss um að það sé til.

Jungle Cruise
Tvær af þessum myndum skýra sig sjálfar en sú í miðið er af þeim Emily Blunt, Dwayne Johnson og leikstjóra Jungle Cruise, Jaume Collet-Serra, á góðri stundu á upptökustað.

Á leiðinni lenda þau svo auðvitað í alls kyns hremmingum og baráttu við bæði vatns- og skógarbúa auk þess sem þýskur leiðangur undir stjórn gráðugs dusilmennis sem einnig leitar að trénu gerir allt til að hefta för þeirra – og mætir meira að segja með kafbát á svæðið.

Aðalbaráttan verður hins vegar sú persónulega sem þau Frank og Lily há sína á milli og gefa tvö plaköt myndarinnar hér fyrir neðan ákveðna vísbendingu um hvaða húmor er þar á ferðinni. Það þriðja er svo aðalplakat myndarinnar. Myndin Romancing the Stone frá árinu 1984 kemur áreiðanlega upp í huga þeirra sem eftir henni muna.

Jungle Cruise plaköt
Eins og sjá má eru fyrstu tvö plakötin grín, en það þriðja er aðalplakat myndarinnar.

Hér má svo sjá nýjustu stiklu myndarinnar sem kom út í mars:

Ball and Chain

Eins og áður sagði hafa þau Dwayne Johnson og Emily Blunt ákveðið að leika aftur saman og nú í myndinni Ball and Chain sem byggð er á samnefndum teiknimyndasögum eftir fyrrverandi X-Men-höfundinn Scott Lobdell með myndskreytingum eftir Alé Garza og Richard Bennett.

Ball and Chain
Ball and Chain-teiknimyndasögurnar komu út árið 1999 og eru eftir Scott Lobdell með myndskreytingum eftir Alé Garza og Richard Bennett.

Ofurhetjusaga með húmor

Sagan í Ball and Chain er um hjónakornin Edgar og Mallory Bulson sem hafa ákveðið að skilja og koma sér sem allra lengst hvort frá öðru enda hefur hjónaband þeirra þróast út í krónískt rifrildi frá morgni til miðnættis.

Þá gerist það undur að þau verða fyrir einhvers konar geislun frá loftsteini sem gæðir þau hvort fyrir sig ofurkröftum. Eftir að hafa uppgötvað hinn óvænta, nýfengna mátt sinn – sem bæði verða harla ánægð með – kemur hins vegar í ljós að mátturinn verkar ekki nema þau séu nálægt hvort öðru. Þar með þurfa þau að velja um hvort þau hafni ofurkröftunum eða reyni að umgangast og þola hvort annað áfram. Þau velja síðari kostinn.

Líklegt verður telja að sögu- og handritshöfundur myndarinnar verði höfundur teiknimyndasagnanna, Scott Lobdell, en hann samdi m.a. einnig sögu og handrit myndarinnar Happy Death Day sem sló gegn 2017. Þetta er þó óstaðfest með öllu.

Myndir frá Disney.