Teiknimyndasagan er listform sem hefur verið í mikilli uppsveiflu á síðustu áratugum víðs vegar um veröldina. Um miðbik síðustu aldar hóf ofurhetjumenningin innreið sína, og lengi vel voru ofurhetjur frumviðfangsefni þessa frásagnarstíls. Á níunda áratugnum fór hins vegar að gæta nýrra strauma, og höfundar á borð við Alan Moore og Grant Morrison spruttu fram á sjónarsviðið með ívið dekkri og alvarlegri efnistök. Hefur þessi frásagnarmáti — og möguleikarnir sem hann býður upp á — þróast hröðum skrefum síðan þá.

Íslenskir lesendur hafa ekki farið varhluta af þessari þróun, enda erum við bókþyrst þjóð sem kann fátt betur að meta en góðar sögur. En það hefur ekki verið mikið um það að Íslendingar taki sjálfir upp á því að skapa teiknimyndasögur, enda er vinnan að baki slíku verkefni vægast sagt gríðarleg, ef vel á til að takast.

Magnús Björn Ólafsson mun hins vegar gefa út sína fyrstu teiknimyndasögu á næstu vikum. Sagan heitir Maram og er unnin í samstarfi við franska listamanninn Adrien Roche. Hér er á ferðinni mystískt ævintýri ungs perlukafara í þjóðflokki vatnafólks, sem leitar að perlunni einu sem geymir leyndardóm lífs og dauða. Sagan er í tveimur hlutum, og er það því fyrra bindið sem verður gefið út á íslensku, ensku og frönsku í lok mánaðarins.

Fréttanetið leit við hjá Magnúsi á dögunum og átti við hann spjall um söguna, listformið og lífið.

Frjálst flæði í vatnaveröld

Aðspurður um fæðingu hugmyndarinnar segir Magnús, „Árið 2012 var ég ásamt fjölskyldu minni staddur í Kambódíu, í heimsókn hjá góðum vinum okkar sem bjuggu þar á þeim tíma. Þau eru yndisleg og vildu gera allt sem í valdi þeirra stóð til að sýna okkur kambódískan kúltúr í öllu sínu veldi, og ferðuðust mikið með okkur um landið og gáfu okkur innsýn í söguna og mannlífið.“

„Við fórum hingað og þangað, en sá staður sem hafði hvað sterkust áhrif á mig var lítið þorp sem heitir Kampong Phluk. Þau kalla þetta Hinn steinrunna skóg, en þorpið stendur í gömlu skóglendi sem er hálfsokkið í vatn. Og fólkið býr bókstaflega á vatninu—húsin standa á stultum yfir vatnsfletinum—og það fer allra sinna ferða í bátum eða syndandi. Engir vegir neins staðar, bara algjörlega frjálst flæði í þessari vatnaveröld.“

„Og þarna sat ég, í litlum bát með hann Flóka minn í fanginu, klæddan appelsínugulu björgunarvesti. Hann er tveggja ára á þessum tíma, og mamma hans með áhyggjur af því að mér takist kannski að missa hann útbyrðis. En þegar ég horfi ofan í vatnið sé ég önnur börn, sem virðast jafnvel yngri en sonur minn — frá eins til kannski þriggja eða fjögurra ára — bara syndandi í kringum okkur eins og fiskar.“

Kampong Phluk (Mynd: Magnús Björn Ólafsson)

„Ég hef alltaf talið mig eiga mjög gott samband við þetta magnaða fyrirbæri sem við köllum vatn. Ég elska vatn og er þakklátur fyrir það á hverjum degi. Í öllum mínum verstu og bestu aðstæðum get ég alltaf leitað í vatnið til að láta mér líða betur, hvort sem er andlega eða líkamlega. En þarna sat ég, og sá í fyrsta sinn manneskjur sem voru í allt annarri tengingu við vatnið en ég og mitt fólk — tengingu sem var handan alls þess sem ég hafði áður ímyndað mér að gæti nokkurstaðar verið til. Og augljóslega var þeirra tenging við elementið í grundvallaratriðum allt önnur en mín. Mér fannst þetta fólk alveg stórkostlega heillandi og ég fann á mér að einhversstaðar, þarna í vatninu, var saga sem vildi láta segja sig.“

„Svo, einhverjum mánuðum seinna, er ég heima hjá mér, nýbúinn að skila af mér einhverju verkefni, svo það skapaðist loksins tómarúm til að vinna í einhverju nýju. Og ég setti þá fram einlæga ósk—bæn, ákall—og óskaði þess að mér yrði treyst fyrir sögu sem ég gæti unnið að. Konan mín, sem er jógakennari, gaf mér svo möntru til að fylgja þessu ákalli eftir, og þegar ég byrjaði að kyrja var eins og ég yrði fyrir eldingu. Ég sá myndir og senur ljóslifandi, hvort sem ég hafði augun lokuð eða opin.“

„Á þessum tíma var ég í raun og veru hættur að hugsa um tenginguna við vatnafólkið, en þarna kom allt í einu upphafssenan í bókinni til mín eins og hún leggur sig. Þarna var lítill perlukafari, sem var kominn af vatnafólki, á einhverju óræðu svæði sem ég gæti ekki fundið á landakorti, og hann vildi láta skrifa sögu um sig, þessi litli drengur.“

„Þetta var það skýrt að ég gat í rauninni ekki hætt að hugsa um það. Og þetta var svo sterkt að ég varð bara ringlaður og þurfti að skrifa og skrifa til að koma þessu frá mér; reyna að framkalla með bókstöfum allar myndirnar sem ég sá út um allt.“

Fæðing af fingrum fram

Var þetta þá eins og nokkurs konar vitrun?

„Kannski var ég búinn að toga til mín alls konar áhrif héðan og þaðan—kannski voru áhrifin búin að toga mig til sín. En ég hafði sterka vissu fyrir því að þar sem ég hafði nú einu sinni beðið um sögu, og sagan hafði komið, þá var þetta eitthvað sem mér var treyst fyrir, eitthvað dýrmætt sem mér bar að gæta vel og vandlega.“

Og hvernig atvikuðust þá kynnin við listamanninn? „Það er ekki alveg hlaupið að því að búa á Íslandi og ætla svo bara að fara að gera teiknimyndasögu, sérstaklega ef maður er ekki sjálfur góður að teikna,“ segir Magnús. „Það eru ekki margir hér sem hafa helgað sig þessu listformi, og þeir sem hafa gert það eru flestir eftirsóttir og bundnir verkefnum mörg ár fram í tímann.“

„En svo árið 2015 bauðst mér í Berlín vinna við að skrifa sögu fyrir tölvuleik. Ég vissi að þetta var tímabundið verkefni, þannig að ég fór að velta því fyrir mér hvað ég gæti gert annað við þennan tíma þarna úti. Svo ég sendi ákall númer tvö út í heiminn, og óskaði þess að ég myndi finna listamann sem myndi vilja fara út í þetta ævintýri með mér. Svo er ég að vinna með hreyfimyndagerðarmanni þarna úti sem heitir Clement. Við verðum góðir vinir, og einn daginn tek ég í mig kjark og spyr hvort hann þekki nokkuð einhvern sem gæti verið til í að gera með mér teiknimyndasögu. Hann horfir á mig og glottir og segir að það geti svo sem vel verið, en að ég verði þá að segja honum söguna fyrst,“ segir Magnús og hlær.

„En sagan var ekkert búin að þróast umfram þessar glefsur sem ég hafði séð og fengið þarna um árið. Þannig að við Clement hittumst á kaffihúsi og svo þarf ég bara að fylla í eyðurnar á staðnum; tengja saman þessar myndir sem höfðu flogið í hausinn á mér. Þegar það er búið brosir hann kankvíslega og segist vera með akkúrat rétta manninn fyrir mig. Hann setur mig svo í samband við Adrien Roche, sinn besta vin.“

„Það verður svo úr að nokkrum mánuðum seinna, í janúar 2016, ákveðum við Adrien loksins að hittast í Frakklandi, á teiknimyndasöguhátíð í bænum Angouleme. En þegar við Clement vorum að keyra frá París til að hitta meistarann, alveg sex tíma bíltúr, þá var eitt lag sem var spilað alveg endalaust á leiðinni, og hlegið og sungið á meðan. Ég sat í farþegasætinu og gerði mitt besta til að hlæja og syngja með, þótt mig langaði það ekkert sérstaklega mikið. Lagið var Honesty með Billy Joel,“ segir Magnús og hlær.

„Þarna var hann nefnilega að keyra mig yfir allt Frakkland, til að hitta besta vin sinn, teiknarann mikla, svo ég gæti sagt teiknaranum þessa frábæru sögu sem ég þóttist vera búinn að skrifa um perlukafarann—sögu sem var langt frá því að vera tilbúin. Mér leið bara eins og ég væri lítill hræddur lygari og beið eftir því að vera afhjúpaður. En á sama tíma treysti ég því einhvern veginn innst inni að þetta myndi bara allt saman smella og gat þess vegna stundum sungið með Billy Joel.“

„Og svo, þegar ég hitti Adrien í fyrsta sinn þarna í Angouleme, þá bara neistaði strax á milli okkar. Það var bara eins og við hefðum alltaf þekkst. Ég hafði aldrei hitt yndislegri mann eða séð eins fallegar teikningar og hann hafði þarna í möppunni sinni. Og það skrítna við þetta er að hann er auðvitað Frakki og talaði á þessum tíma nánast enga ensku, en ég gat einhvern veginn útskýrt söguna fyrir honum með hjálp milliliða, og hann fékk glampa í augun og tilkynnti mér hátíðlega að þetta væri einmitt sagan sem hann var búinn að bíða eftir. Og þar með hófst þessi vegferð.“

Við eigum ekki hugmyndina, við eigum að gæta hennar

Þannig að sagan er í raun að koma í heiminn dálítið á eigin forsendum? „Já, akkúrat, og ég hef þurft að vera mjög meðvitaður um það allan tímann,“ segir Magnús.

Er þá sagan eins og hún kom út á þessum fyrsta fundi ykkar sú sama og hún er í dag? „Nei, en neistinn, og samband okkar Adrien, varð til þarna í Frakklandi. Og sagan hefði aldrei orðið til nema í gegnum þetta samband. Hann var í raun og veru vindurinn sem þurfti til að gera þennan litla neista að bálinu sem síðan mótaði söguna. Og við höfðum báðir þessa sömu tilfinningu strax í upphafi, að það væri verið að treysta okkur fyrir einhverju, að við ættum að gera okkar besta til að passa upp á söguna, af því að okkur hafði auðnast það að hún kom til okkar. Við eigum ekki þessa hugmynd, en við eigum að gæta hennar. Og ég vona að okkur hafi tekist það.“

„Við ákváðum strax að allur höfundaréttur, og allt þess háttar, skyldi allt vera sameiginlegt og skráð á okkur báða. Ég held að það sé óvenjulegt í þessum geira, þar sem þessu er venjulega haldið aðskildu, og menn vilja hafa sitt fyrir sig. En þessi ákvörðun — þessi samruni — gerði bara allt svo miklu auðveldara. Ef við þurfum í dag að gagnrýna vinnu hvors annars, þá erum við mjög meðvitaðir um það að við erum ekki í keppni um að gagnrýna hvorn annan persónulega og rífa hvorn annan niður, heldur erum við bara að kalla eftir því sem er best fyrir söguna. Verkið skiptir meira máli en við einir og sér.“

Frá hægri: Magnús Björn, Adrien Roche og Jean Posocco við undirskrift útgáfusamningsins

„Ég var til dæmis einu sinni tilbúinn með einhvern svakalegan texta sem ég var búinn að vinna að í tvær vikur og þótti rosalega vænt um, búinn að leggja allt í sölurnar til að særa fram orð sem áttu að framkalla alla skapaða hluti. En svo kom Adrien með mynd á móti textanum sem sagði miklu, miklu meira en mín þúsund orð hefðu nokkurn tímann getað sagt. En vegna þess að verkið skiptir meira máli en persónan var auðvelt að afturkalla textann. Og myndin stendur bara ein og sér í dag og talar sínu máli.“

Eins og að velja sér hljóðfæri

Átti þetta alltaf að vera teiknimyndasaga?

„Já. Þetta var augljóst í þessu tilfelli, vatnið, flæðið. Það sem er svo fallegt við teiknimyndasögur sem listform er að það þarf svo einstakt flæði til að leiða athygli lesandans í gegnum söguna áfallalaust. Og það eru bara til svo margir miklir meistarar á þessu sviði sem geta leitt þig í gegnum sköpunarverkið í allt annarri tímavídd og á allt öðru tíðnisviði en önnur söguform búa yfir. Lesandinn situr kannski í sínum eigin heimi, með bókina fyrir framan sig, og hefur alltaf fullkomið vald til að meðtaka allt á sínum hraða. En á sama tíma leiða höfundarnir athygli hans yfir blaðsíðurnar með myndum og texta og táknum sem hjálpa honum að finna hjartsláttinn í verkinu—vitandi það að lesandinn getur hvenær sem er horft fram á við innan viss ramma; hann getur alltaf kíkt á næstu mynd og svindlað, en tímir því ekki ef sagan hefur fangað hann. Það er einhver taktur þarna, einhver tegund af trausti, sem fyrirfinnst ekki annarsstaðar að mér vitandi. Og þetta verður að vera ósýnilegt, ósagt, einhver tilfinning sem leiðir þig áfram. Og þegar þessi samruni verður til, verður galdurinn til. Þeir eru byrjaðir að tala saman, lesandinn og sögumaðurinn—þeir deila tíðni. Það er þetta samspil, þetta traust, sem mér finnst vera kjarninn í þessu öllu saman.“

Aðspurður um muninn á þessu listformi og öðrum frásagnarformum segir Magnús, „Teiknimyndasagan getur auðvitað ekki framkallað nákvæmlega sömu upplifanir og önnur listform geta framkallað, og öfugt—en til þess er leikurinn gerður. Þetta er bara eins og að velja sér hljóðfæri. Þessi harpa er með ákveðinn tón og ákveðna dýpt. Og ég vona bara að okkur hérna heima takist kannski að opna augun aðeins betur fyrir því hvað þetta söguform er fallegt—að þetta sé eitthvað annað en bara Tarzan og Spiderman og Andrés önd. Og nú er ég ekkert að segja það að við eigum öll að fara að taka teiknimyndasögur eitthvað svakalega alvarlega — ég held að enginn vilji það — vegna þess að það er kannski einmitt það sem er að grafa undan stórum hluta söguheimsins okkar í dag, hvort sem það eru skáldsögur eða bíómyndir eða hvað það nú er. Ég hef það á tilfinningunni að mörg séum við að taka okkur sjálf allt of alvarlega á kostnað þess sem við eigum að vera að skapa saman. Mér finnst til dæmis sorglegt hvernig munnmælasöguhefðin hefur nánast þurrkast út vegna þess að við þurfum alltaf að vera að setja nöfnin okkar svo stórt fyrir framan eða aftan allt sem við gerum. Eru íslensk skáld mikið að segja fólki sögur og ljóð nema rétt til að kynna og selja nýjustu bækurnar fyrir jólin? Hvað varð um eldinn og nóttina?“

Dropar á flugi

Að lokum spurðum við Magnús hvort svona samvinna væri marktækt öðruvísi og jafnvel hlutlægt betri en að vinna einn við skáldverk. Hann jánkaði því.

„Ég veit ekkert betra í heiminum heldur en það að tengjast annarri manneskju, í svo miklu trausti, svo mikilli virðingu, og svo miklum sameiginlegum skilningi um það sem skiptir raunverulega máli, að okkur tekst saman að hjálpa hvoru öðru áleiðis, á sameiginlegri vegferð án þess að það myndist óþarfa árekstrar sem eru byggðir á þessum misskilningi sem þessi „ég, ég, ég“ hugsunarháttur kallar endalaust fram í mér og þér. Það er ekkert betra en það þegar okkur tekst að skapa eitthvað sem er stærra en summa partanna sem við höldum að við höfum að gefa. Ég vil helst upplifa svoleiðis samstarf sem oftast í mínu lífi og mér þætti vænt um að sjá það sem víðast í okkar samfélagi. Ég held að góð samvinna virki sem meðal á móti stóru tálsýninni, þessu sýndarafli, sem stendur okkur fyrir þrifum alla daga — þessari endalausu „ég, ég, ég“ möntru — þessari hugmynd um að ég sé á allan mögulegan og ómögulegan hátt aðskilinn frá þér.“

„Það er bara einn dropi í hafinu. Svo kemur smá öldurót, svaka skvetta, og óskaplegt busl, og einn dropi fer hingað og annar þangað. Og í smá stund fá droparnir að gleyma því að þeir eru sjálfur sjórinn í öllu sínu veldi; fá að fljúga um loftið og gera heljarstökk og alls konar kúnstir og horfa á alla hina dropana í kring og sperra sig. En alveg sama hvað þeir þenja sig mikið og gera sig stóra og merkilega, munu þessir litlu dropar á endanum alltaf renna saman við sjóinn upp á nýtt. Hafið er bara einn dropi.“

Fyrsta bindi Maram kemur út í lok mánaðar og verður fáanleg í öllum helstu bókabúðum landsins.