Leitin að Covid-19 bóluefni heldur áfram, og hafa dýralífssérfræðingar nú haldið því fram að hátt í hálfri milljón hákarla gæti verið slátrað áður en yfir lýkur.

Skvalen er náttúruleg olía sem framleidd er í lifur hákarla. Hún er notuð í lyf og lýsi og einnig sem hjálparefni til að auka virkni bóluefnis, auk þess sem hún hefur verið notuð sem tilraunabóluefni gegn kransæðavírusnum.

Ef lyf sem inniheldur skvalen verður samþykkt til framleiðslu víðs vegar um heim telja dýraverndunarsamtökin Shark Allies að um 250.000 hákörlum þurfi að slátra til að sjá öllu mannfólki fyrir einum skammti. Sú tala tvöfaldast svo ef fólk endar með að þurfa tvær sprautur frekar en eina til þess að bólusetning takist að fullnustu.

“Það verður aldrei sjálfbært að verka svona lagað úr villtu dýri,” sagði Stefanie Brendl, stofnandi og framkvæmdastjóri Shark Allies, í færslu á Facebook-síðu samtakanna, “sérstaklega ef það er topprándýr sem fjölgar sér ekki hratt.”

“Við erum ekki að reyna að hægja á eða hindra framleiðslu bóluefnis,“ sagði Brendl jafnframt. „Við biðjum einfaldlega um að prófanir á skvaleni sem ekki er unnið úr dýrum fari fram samhliða hinu, svo hægt sé að skipta því út fyrir hitt eins fljótt og auðið er.”

“Milljarða skammta mun þurfa á ári og næstu áratugi, þannig að það er mikilvægt að við treystum ekki á villta auðlindina. Það gæti reynst skaðlegt fyrir hákarlategundir sem veiddar eru fyrir olíuna, og ekki er hægt að stóla á stöðugt framboð.”

Samtökin hafa sett á laggirnar undirskriftasöfnun á netinu sem heitir „Hættið að nota hákarl í COVID-19 bóluefni – notið sjálfbæra valkosti sem nú þegar eru til.“ Þar sem efnafræðileg uppbygging skvalensambandsins er eins í hákörlum og öðrum dýrum, segja samtökin, ætti virkni þess í bóluefnum að vera sú sama óháð uppruna þess.

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnun (WHO) standa nú yfir klínískar rannsóknir á 40 bóluefnum fyrir Covid-19.