Björn Leifsson, eigandi World Class, sagði í viðtali við fréttastofu Stöð 2 á mánudaginn síðastliðinn að hann vildi auka starfsemi líkamsræktarstöðva til að vera betur í stakk búinn til að verjast veirunni. Nefndi hann að best væri að verjast veirunni með því að vera heilbrigð og hraust á líkama og sál. Hann gagnrýndi sóttvarnalækni og þá sem hafa talað um að líkamsræktarstöðvar væru hættulegir staðir til að vera á og tók fram að enginn smit hafi komið upp í líkamsræktarstöðvum. Þau fáu sem mæta núna í World Class upplifa „æfingaskömm“ og þori varla að segja neinum frá heimsóknum sínum á staðinn.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar, segist vera sammála Birni að því leyti að mikilvægt sé að vera hraustur og í reglulegri hreyfingu. „En ég er algjörlega ósammála honum, annars vegar, að það verði að gerast inni á stöðvunum hans eða öðrum sambærilegum stöðvum og hitt er líka rangt, það að þú sért líkamlega hraustur komi í veg fyrir að þú fáir covid. Við vitum betur,“ sagði Helga Vala Helgadóttir en hún þekkir sjálf til fólks sem voru í góðu líkamlegu standi og eru að fást við eftirköst COVID-19 veikinda mörgum mánuðum eftir greiningu.

Þetta sagði Helga Vala í hlaðvarps þættinum Arnarhóll en hægt er að hlusta á þáttinn í heild hér að neðan. Ummæli Helgu sem vitnað er í að ofan má heyra á 44. mínútu þáttarins.