Hildur Guðnadóttir92. Óskarverðlaunahátíðin sem fram fór að kvöldi 9. febrúar 2020 í Dolby-leikhúsinu í Hollywood mun seint líða úr minni íslensks tónlistar- og kvikmyndaáhugafólks enda rættist þá loksins sá langþráði draumur margra að Íslendingur hlyti Óskarsverðlaun í fyrsta sinn.

Hildur Guðnadóttir tónskáld stóð uppi sem sigurvegari í flokki bestu kvikmyndatónlistar ársins 2019 fyrir tónlist sína í The Joker eftir leikstjórann Todd Phillip. Hildur hafði þá þegar einnig unnið bæði Golden Globe- og BAFTA-verðlaunin í sama flokki auk fjölda annarra verðlauna.

Vantar bara T-ið í EGOT

Vegna þess að Hildur hafði nokkrum mánuðum áður einnig hlotið Emmy-verðlaunin og svo Grammy-verðlaunin fyrir tónlist sína í Chernobyl-sjónvarpsþáttunum var hún nú nokkuð skyndilega búin að næla sér í þrjá fjórðu hinnar svokölluðu EGOT-alslemmu bandarísks skemmtiiðnaðar (Emmy, Grammy, Oscar) og vantar nú bara T-ið sem táknar Tony-verðlaunin til að klára hana. Það hafa aðeins fimmtán listamenn gert frá upphafi, en reyndar sex í viðbót ef heiðursverðlaun eru talin með.

Tilefni þessarar greinar er hins vegar síða á Óskarsverðlaunasíðunni Oscar.com þar sem Hildur er beðin um að tilnefna 5 bíómyndir sem að hennar mati innihalda bestu kvikmyndatónlistina (hennar eigin tónlist undanskilin auðvitað).

Ekki kemur fram hvenær þessi listi var birtur, þ.e. hvort það var strax eftir Óskarinn eða síðar, en það ætti svo sem ekki að breyta neinu. Hann er jafnáhugaverður fyrir það.

En hér er sem sagt listinn og honum fylgja stuttar útskýringar Hildar

The Shining (1980) eftir Stanley Kubrick með tónlist eftir Wendy Carlos og Rachel Elkind.

„Þetta er sennilega allra tíma uppáhalds kvikmyndatónlistin mín, tónlist sem virkilega, virkilega heltekur mann.“

2. Twin Peaks: Fire Walk With Me (1992) eftir David Lynch með tónlist eftir Angelo Badalamenti.

„Mér þótti þessi tónlist frábær. Ég elskaði einfaldleikann í henni.“

Birdman or (The Unexpected Virtue of Ignorance) (2014) eftir Alejandro G. Iñárritu með tónlist eftir Antonio Sánchez.

„Ég algerlega dýrkaði þessa tónlist og fannst hún mjög skemmtileg. Það var frábært að heyra hvernig trommurnar náðu að túlka allt litróf tilfinninganna. Ég verð spennt þegar ég hlusta á svona frumlega tónlist.“

The Revenant (2016) eftir Alejandro G. Iñárritu með tónlist eftir Alva Noto og Ryuichi Sakamoto.

„Ég kom nú reyndar að þessari tónlist (Hildur spilaði á selló í henni og var sú spilun mjög áberandi í sögunni) en þessi mynd var bara öll alveg stórkostleg. Kvikmyndatakan var frábær.“

When Harry Met Sally… (1989) eftir Rob Reiner með tónlist eftir Marc Shaiman og Harry Connick Jr.

„Þetta er sú mynd sem ég hef séð oftast með mömmu. Við elskum hana.  Við kunnum hana bókstaflega utanað. Ég nefni hana meira hér vegna þess hve gaman ég hafði af henni.“

Forsíðumynd: DFree / Shutterstock.com