Ertu komin/n með leið á hefðbundnum kanilsnúðum? Þá vil ég mæla með þessum litlu dúllum – þó ég fái aldrei nóg af mínum langbestu kanilsnúðum.

Þessir snúðar, maður minn! Þvílíkur unaður! Epli + kanill + karamella – þetta getur ekki klikkað!

Svo er þetta svo ofureinfalt. Tilvalið sætabrauð með kaffinu á tyllidögum, eða bara á hverjum degi. Allt er gott í hófi!

Epla- og karamellusnúðar

Deig:

2 3/4 bolli hveiti (plús meira til að fletja deigið út)
1/4 bolli sykur
1 bréf þurrger
1 tsk salt
2 msk bráðið smjör
1 bolli volg mjólk
1 egg

Fylling:

2 bollar epli (afhýdd og skorin í litla bita)
4 tsk smjör
2 msk púðursykur
1/2 tsk kanill
1/2 bolli þykk karamellusósa

Aðferð:

Byrjum á deiginu. Blandið hveiti, sykur, þurrgeri og salti saman í skál. Blandið mjólk og smjöri saman í annarri skál. Búið til holu í þurrefnablönduna og hellið mjólkurblöndu og eggi ofan í holuna. Hnoðið vel saman, setjið plastfilmu yfir skálina og leyfið deiginu að hefast við stofuhita í um 30 mínútur.

Svo er það fylling. Bræðið smjör á pönnu yfir meðalhita. Bætið eplum, púðursykri og kanil saman við smjörið og eldið í 5-7 mínútur, eða þar til eplin eru mjúk. Fletjið deigið út og penslið það með þykkri karamellusósu. Dreifið eplablöndunni yfir karamellusósuna en reynið að skilja mestallan vökvann eftir í pönnunni. Rúllið deiginu upp og skerið í bita. Raðið snúðunum á pönnu eða í eldfast mót og leyfið þeim að hefast aftur undir viskastykki á meðan þið hitið ofninn í 190°C. Bakið snúðana í um 20 mínútur.