Allflestir þekkja þá kenningu að hjón taki að líkjast hvort öðru því lengur sem þau eru saman. Íslendingar eru kannski hlynntari henni en flestir, enda tíðkast það síður en svo í öllum tungumálum að til sé afmarkað orð yfir fyrirbærið. 

Sálfræðingurinn Robert Zajonc gerði árið 1987 rannsókn sem leiddi líkur að því að makar færu að líkjast hvorum öðrum eftir því sem á líður, sökum sameiginlegra þátta eins og mataræðis, lífsstíls og skapgerðar. Samanburðargögnin í rannsókninni voru þó tekin úr mjög litlu mengi þátttakenda og þótti hún því heldur hlutdræg.

Vísindamenn við Stanford-háskóla í Bandaríkjunum ákváðu á dögunum að setja dæmið upp í aðeins skorðaðri mynd. Doktorsnemarnir Pin Pin Tea-makorn og Michal Kosinski settu saman gagnagrunn ljósmynda sem fylgdist með 517 pörum og leit sérstaklega til samræmingar á andlitssvipum yfir tíma. Myndir af hjónum sem teknar voru tveimur árum eftir hjónaband voru þá til dæmis bornar saman við myndir sem teknar voru 20, 30 og allt að 69 árum seinna.

“Þetta er eitthvað sem fólk trúir á og við vorum forvitin um það,” sagði Tea-makorn við breska dagblaðið The Guardian. “Upprunalega hugsunin hjá okkur var að ef andlit fólks samræmdust yfir tímann þá gætum við skoðað hvaða tegundir af andlitsdráttum færu að líkjast.”

Rannsóknin var unnin með bæði mannlegum greinendum og háþróuðum andlitsgreiningarhugbúnaði. Eftir að gögnin voru tekin saman kom í ljós að engin raunveruleg fylgni fannst þegar kom að samræmingu andlitsdrátta yfir tímann. Sum pör sem höfðu verið saman í langan tíma líktust hvort öðru meira en önnur pör, en talið var líklegra að það væri vegna þess að þau hefðu líkst hvort öðru til að byrja með.

Ástæðuna fyrir þessu telja doktorsnemarnir vera svokölluð birtingaráhrif („mere exposure effect“), sem er sálfræðiheitið yfir tilhneigingu okkar til þess að velja frekar hluti og fólk sem við könnumst við. Sem annað dæmi um þessi áhrif má líta til þess hve margir hundar líkjast eigendum sínum.

Vísindin hafa því kveðið upp dóm sinn um hjónasvipinn að svo búnu. Forvitnilegt verður að sjá hvort ráðist verður í frekari rannsóknir á þáttum eins og líkamstjáningu, talvenjum, raddbeitingu og þar fram eftir götunum. Aldrei að vita — þar gæti hjónasvipshundurinn legið grafinn.