Gítarleikarinn og trúbadorinn Ingvar Valgeirsson hefur sent frá sér sex laga plötu, sem bæði er að finna í rafrænu formi og á geisladisk.

Ingvar ákvað að grípa tækifærið á meðan ekkert hefur verið að gera í spilamennsku í samkomubanninu. Í lýsingu plötunnar segir hann lögin vera af ýmsum toga, allt frá hressu blúsrokki yfir í löng og tregafull lög undir sterkum „progg-áhrifum.“

Platan ber heitið Ívaf og hefur Ingvar fengið til liðs góðan hóp samstarfsmanna. Þau Ingimundur Óskarsson (Dúndurfréttir og Kristin Gallagher (Swizz, Spútnik, Dalton) sjá um bassaleik, Hannes Friðbjarnarson (Buff, Dead Sea Apple) og Helgi Víkings (Swizz, Dans á rósum) tromma og Stefán Örn Gunnlaugsson (Buff, Íkorni) stjórnar upptökum auk þess að sjá um útsetningar, radda og leika á hljómborð af ýmsum gerðum. Ingvar sér um söng og (vissulega) gítarleik.

Platan var tekin upp í Stúdíó Bambus í Hafnarfirði.