Höldum áfram er ný vefsíða þar sem Samtök atvinnulífsins, SA, birta tillögur fyrir efnahagslífið í sex flokkum, auk þess sem birt eru viðtöl við atvinnurekendur, tölfræði úr könnunum og reiknivél. Tillögur SA snúa að opinberum rekstri, skattastefnu, regluverki, grænni viðspyrnu, vinnumarkaðnum og menntamálum. Yfirskriftin Höldum áfram er fengin frá sérverkefni SVÞ, SAF og SI sem sett var í gang í fyrstu bylgju heimsfaraldursins. Á vefsíðunni segir að hringrás atvinnulífs og samfélags myndi órjúfanlega heild. Við byggjum velferð okkar á því að allt gangi vel. Ef fyrirtækjum og starfsfólki gangi vel gangi okkur öllum betur.

Í tillögum um menntamál  kemur meðal annars fram að nýsköpunargeta þjóðarbúsins á komandi árum og áratugum muni meðal annars ráðast af aðgangi fyrirtækja að sérfræðiþekkingu en skortur á henni geti hindrað vöxt þeirra. Á Íslandi sé hlutfall tæknimenntaðra 16% af háskólamenntuðum en til samanburðar 21-30% á Norðurlöndunum. Þar kemur fram að fjölga þurfi til muna þeim sem sækja iðn-, starfs- og listnám.

Í tillögum um græna viðspyrnu kemur fram að ríkið geti haft áhrif á hegðun, annað hvort með jákvæðum aðgerðum, eins og ívilnunum, eða neikvæðum aðgerðum eins og sköttum, boðum og bönnum og að fullreyna ætti allar tiltækar jákvæðar aðgerðir áður en gripið sé til þeirra neikvæðu.

Í tillögum um skattastefnu kemur fram að brýnt sé að skapa jarðveg fyrir verðmæt störf. Hvetjandi skattkerfi sem stuðli að fjölgun starfa sé því hagsmunamál allra landsmanna, ekki bara fyrirtækja. Þar er nefnt að tekjur af fasteignasköttum nemi um 1,5% af landsframleiðslu og nær hvergi í Evrópu sé skattbyrði vegna fasteigna meiri. Skattbyrðin leggist þyngst á atvinnuhúsnæði þar sem fyrirtæki greiða árlega rúmlega 1% af landsframleiðslu, eða um 28 milljarða króna, til sveitarfélaga í formi fasteignaskatta.

Í tillögum um opinberan rekstur  kemur fram að mikil tækifæri séu til aukinnar skilvirkni í rekstri hins opinbera og að ábyrg fjármálastefna sé forsenda þess að unnt sé að standa vörð um mikilvæga grunnþjónustu og fjárfesta í mikilvægum innviðum.

Í tillögum um regluverk kemur fram að óþarflega íþyngjandi regluverk dragi úr hvata til atvinnustarfsemi og skerði samkeppnishæfni. Tækifæri séu til umbóta á regluverki til einföldunar og borðleggjandi sé að ryðja úr vegi hindrunum sem hafa hamlandi áhrif á frumkvöðlastarfsemi.
Í tillögunum um nýtt vinnumarkaðslíkan kemur fram að aðilar vinnumarkaðar, sem þriðji armur hagstjórnar, verði að sýna ábyrgð og festu því annars sé stefnu ríkisfjármála og peningamála ógnað. Endurbætur þurfi að gera á kjarasamningalíkaninu til að stuðla að almannagæðum, stöðugu verðlagi og gengi, og lágum vöxtum.