Kvikmyndahús
Kvikmyndahús: Rekstur þeirra verður erfiður í sumar án stóru sumarmyndanna.
Mynd: Krists Luhaers / Unsplash

Eins og svo hjá svo mörgum öðrum tannhjólum sem drífa í sameiningu hið stóra hjól atvinnu- og efnahagslíf heimsins varð nánast alkul í bandaríska kvikmyndabransanum í Hollywood þegar svo til öll kvikmyndahús Bandaríkjanna og Evrópu lokuðu dyrum sínum í mars og apríl.

Á sama tíma stöðvaðist svo að segja öll kvikmyndaframleiðsla um allan heim og um leið fóru öll plön í uppnám og á ís, og sum hver beinustu leið í vaskinn. Ljóst er að það mun taka langan tíma að koma öllum þessum hjólum í gang aftur og stóra hjólinu á fullt.

Eins og hér á landi hafa bandarísk kvikmyndahús verið að reyna að opna smám saman á ný að undanförnu, en undir ströngum reglum um takmarkað sætaframboð og þar með takmarkaða miðasölu á hverja sýningu – sem auðvitað þýðir mjög skertar tekjur.

Þessi takmarkaða opnun hefur lítið hjálpað stóru dreifingarfyrirtækjunum við að fylgja eftir þeim ákvörðunum um frumsýningar í júlí og ágúst sem þó var vonast eftir að stæðu, eins og t.d. á mynd Christophes Nolan, Tenet, sem enn er dagsett um miðjan júlí og á Wonder Woman sem enn er á dagskrá í ágúst. Ekki fyllir sú umræða, að hugsanlega sé önnur bylgja kórónaveirunnar væntanleg, neinn af bjartsýni.

Mikilvægasta vertíð ársins undir

Eins og þegar hefur komið fram í fréttum af frumsýningum hefur mörgum af þeim myndum sem ætlað var að trekkja að í kvikmyndahúsin í sumar verið frestað eins og t.d. nýju James Bond-myndinni, Fast and Furious 9, nýju Minions-myndinni og mörgum fleiri. Óttast nú allir í bransanum, og eflaust margt almennt kvikmyndaáhugafólk, að svo geti farið að restinni af sumarmyndunum verði einnig frestað.

Þar með yrðu kvikmyndahús um allan heim af mikilvægustu tekjunum í mikilvægustu vertíð ársins, svona eins og t.d. fiskvinnsluiðnaður heimsins myndi upplifa ef allir fiskar hyrfu skyndilega úr sjónum fyrir utan grálúðu og marhnúta, og einstaka síli.

Rekstur sem gengur ekki lengi upp

Fari þetta á versta veg munu kvikmyndahús þurfa að halda sér á floti í sumar með sýningum á þeim „minni“ myndum sem þó verða í boði. Hugsanlegt er að aðsókn á þær aukist en það verður þó aldrei nóg til að bæta fyrir algeran skort á stóru myndunum, eða „blockbusterunum“ eins og þær eru kallaðar á útlensku, sem trekkja að langflesta áhorfendur í hverjum mánuði.

Þetta hefur ekkert að gera með gæði mynda heldur er það bara staðreynd að stóru Hollywood-myndirnar með stærstu stjörnum kvikmyndaheimsins fá langmesta aðsókn að meðaltali og án þeirra yrði kvikmyndahúsarekstur svo erfiður að það kæmi ekki á óvart þótt mörg þeirra hreinlega lokuðu aftur þar til þessi veiruskratti er endanlega að baki.

Staðan núna er þessi:

Staðan núna er að sumu leyti einföld. Sá sem á næsta leik er Warner Bros-kvikmyndarisinn. Hann er dreifingaraðili Tenet, myndar Christophers Nolan sem jafnframt er nú ljóstýran í myrkrinu sem augu allra beinast að. Þurfa forráðamenn fyrirtækisins fljótlega að taka ákvörðun um að sýna eða fresta myndinni.

Hermt er, a.m.k. á sumum kvikmyndavefritum, að það sé í raun Christopher Nolan sjálfur sem hafi hingað til komið í veg fyrir ákvörðun um að fresta Tenet. Hans vilji mun þó örugglega þurfa að víkja fyrir viðskiptahagsmunum þegar ákvörðun verður tekin. Verði Tenet frestað, er ljóst að júlímánuður er í algjöru í uppnámi, eiginlega ónýtur, og ef Wonder Woman verður líka frestað er öll sumarvertíðin farin fyrir bý – eða svo gott sem.

Auðvitað vill enginn að svo fari … en fari það samt svo … hvað gera bændur þá?

Forsíðumynd: Thomas Wolf / Wikimedia