Önnur bylgja kórónuveirusmita í Suður Kóreu hefur verið tengd við „homma“ klúbba í höfuðborginni Seoul. Hefur það haft í för með sér að hinsegin fólk hefur verið ofsótt enn frekar í landi sem var fyrir nokkuð óvinveitt hinsegin fólki.

Síðasta sunnudag var tilkynnt um 35 ný smit í landinu, það mesta í heilan mánuð. 29 þeirra mála voru tengd við bari í Itaewon hverfinu í Seoul þar sem meirihluti bara og skemmtistaða eru „hinsegin“ staðir.

Þessi nýja bylgja hefur komið hinsegin fólki í landinu í sviðsljósið. Var þar varla á bætandi í landi þar sem fordómar og mismunun gagnvart hinsegin fólki er mikið vandamál og þar sem flestir kjósa að leyna kynhneigð sinni frá vinum, fjölskyldum og vinnufélögum.

Yfirvöld hafa nú þegar prófað um 2500 manns sem voru á þessum stöðum síðustu helgi en leita um 3000 manna sem talið er að geti verið smituð. Margir þeirra sem leitað er að reyna eins og þeir geta að forðast það að vera skoðuð af ótta við að kynhneigð þeirra verði gerði opinber gegn vilja þeirra.

Samkynhneigðir forðast að vera skoðaðir á meðan fjölmiðlar nafngreina þá

Þær fréttir að vírusinn hafi verið að berast á milli manna á hinsegin börum og að samkynhneigt fólk sé að forðast það að vera mælt hefur sent bylgju haturs í gegnum þjóðfélagið í Suður Kóreu.

Þannig hafa fjölmargir Suður Kóreskir miðlar tekið upp á því að ekki bara nafngreina einstaklinga sem voru á þessum klúbbum síðustu helgi heldur hafa þeir birt aldur þeirra og vinnustaði.

Þá hafa þekktir „jútjúbarar“ tekið höndum saman og skráð sig á stefnumótasíður ætlaðar samkynhneigðum til þess að „koma upp um“ samkynhneigt fólk. Þá hafa ýmsar samfélagsmiðlastjörnur í landinu birt myndir og video af hinsegin börum og klúbbum og óskað eftir því að fólk gefi þeim peninga í baráttunni gegn þessari „óværu“ sem samkynhneigð er.

37 ára maður sem vinnur í tæknigeiranum sagði Guardian það undir dulnefni að hann hefði farið á þrjá þessara klúbba. Hann óttaðist að missa vinnuna ef hann færi í próf. Á fundum hjá fyrirtækinu sem hann ynni hjá væru samstarfsmenn hans sammála um að alla samkynhneigða menn ætti að drepa með því að setja þá í gasklefa.

Það er The Guardian sem segir frá