Frásögn hinnar 45 ára gömlu Patriciu Ripley var í stuttu máli á þá leið að hún hefði verið að aka um sunnanverða Miami-borg á Suður-Flórída ásamt syni sínum, Alejandro 9 ára, þegar tveir menn, svartir á hörund, neyddu hana til að stöðva bílinn.

Hún sagði þá hafa hótað sér lífláti og heimtað af henni eiturlyf. Þegar hún sagðist engin eiturlyf vera með hefðu þeir rænt hana og síðan numið son hennar á brott með sér.

Einhverfur og mállaus

Lögreglan hóf þegar leit að drengnum og lýsti eftir honum, en Alejandro var einhverfur og átti svo erfitt með mál að hann var nánast mállaus þótt hann gæti gefið frá sér hljóð. Innan tveggja tíma frá því að móðir hans tilkynnti um „mannránið“ fannst lík hans í tjörn á Miccosukee-golfvellinum.

Eftirlýsing lögreglunnar á Twitter:

Á föstudagsmorgun hélt rannsóknin áfram og hafði lögreglan uppi á fólki sem hafði séð Patriciu og Alejandro kl. 19 kvöldið áður. Hafði þeim virst sem hún væri að neyða hann ofan í skurð sem var fullur af vatni og komu honum til aðstoðar. Hafði fólkið einnig tekið myndband af atvikinu. Það gat samt ekkert gert þegar Patricia fór með drenginn aftur í bílinn og ók á brott.

Þessi vitnisburður og myndbandið leiddi til þess að lögreglan hætti að gera ráð fyrir að saga Patriciu um árás mannanna tveggja væri sönn. Þess í stað notaði hún daginn til að grennslast nánar fyrir um aðstæður Alejandros og móður hans.

Beið í fimmtán mínútur á bílastæði

Vísbendingarnar eftir þá rannsókn og annað myndband úr öryggismyndavél sem sýndi að Patricia hafði beðið í 15 mínútur á bílastæði áður en hún hringdi í lögregluna bentu til þess að hún hefði verulega óhreint mjöl í pokahorninu. Nægðu þær vísbendingar til að saksóknari gaf út ákæru á hana fyrir morð og tilraun til morðs.

Snemma í gærmorgun var hún síðan handtekin og leidd fyrir dómara þar sem hún játaði að hafa myrt Alejandro.

Tæpri klukkustund eftir að fólkið sem sá Patriciu í átökum við Alejandro við skurðinn, og hún ók með hann á brott, hafði hún aftur numið staðar, nú við tjörnina á Miccosukee-golfvellinum. Í þetta sinn var enginn nógu nálægt til að bjarga Alejandro og Patricia drekkti honum í tjörninni. Að því búnu ók hún á brott og tilkynnti svo um „brottnám“ hans hálftíma síðar.

Samfélagið slegið

Óhætt er að segja að fólkið í samfélaginu sem Alejandro og hans fjölskylda tilheyrði sé slegið. Á föstudag, eftir að lögreglan tilkynnti að lík hans væri fundið, eftir að hafa áður lýst eftir honum, var haldin minningarsamkoma við sérskólann sem Alejandro gekk í. Bar öllum sem þar höfðu verið saman um að þau hefðu trúað sögu Patriciu um mannránið og ekki látið sér detta í hug að hún hefði myrt drenginn.

Sjálf sagði Patricia frammi fyrir dómara í gær þegar hún játaði á sig morðið að hún hefði viljað koma syni sínum á „betri stað.“ Hennar bíður sjálfsagt þungur fangelsisdómur, jafnvel til lífstíðar, fyrir þennan grimmilega og óskiljanlega verknað.

Hér fyrir neðan má sjá umfjöllun sjónvarpsrásarinnar WPLG um þetta hroðalega mál og nánar má lesa um það t.d. hér og á fjölmörgum öðrum fréttasíðum  þar sem því verður því eflaust fylgt eftir næstu daga með ítarlegri frásögnum.

Forsíðumynd: Lögreglan í Miami.